Hafnaáætlun 2001--2004

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 19:01:10 (8395)

2001-05-19 19:01:10# 126. lþ. 129.18 fundur 327. mál: #A hafnaáætlun 2001--2004# þál. 28/126, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[19:01]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert að hlusta á þessa umræðu milli deifbýlisþingmanna um hvernig eigi að fara með fé til hafna og að rétt sé að gjaldskrá hafna verði frjáls. Yfirleitt er þá ráðist á Reykjavíkurhöfn. Sem formaður hafnarstjórnar Reykjavíkurhafnar í átta ár þá mótmæli ég þeim orðum sem hv. þm. lét falla, að Reykjavíkurhöfn hefði gert allt til þess að leggja stein í götu framkvæmda í Hafnarfjarðarhöfn. Það er vitleysa.

Vandamálið er tvenns konar. Í fyrsta lagi gjaldskrá hafna, þ.e. fiskiskip greiða ekki rétt gjald miðað við þá þjónustu sem þau fá í höfnunum. Í annan stað er það náttúrlega bindingin við Hafnamálastofnun, að geta ekki framkvæmt nokkurn skapaðan hlut öðruvísi en að allar framkvæmdir þurfi að fara þar í gegn. Þegar spurt er: Hver er verðskrá þessa ríkisfyrirtækis sem á að vera leiðandi fyrir hina dreifðu byggð? Þá er því til að svara að það er leitað út í bæ og spurt hvað verkfræðistofur taka fyrir þessa vinnu. Þeir aðlaga sig því verði.

Fiskiskipaflotinn borgar ekki rétt gjald fyrir þá þjónustu sem hann er að kaupa. Hún er niðurgreidd af hálfu ríkisins.