2001-05-19 19:32:48# 126. lþ. 129.20 fundur 619. mál: #A samningur um Alþjóðastofnun um notkun gervitungla í siglingum (INMARSAT)# þál. 30/126, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[19:32]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir gerði grein fyrir afstöðu okkar í þessu máli í umræðunni um Landssímann, einmitt því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að tala um hér áðan og að því lýtur fyrirvari okkar við nál. sem hér liggur, þ.e. að við erum ekki sammála því að það eigi að selja þennan hlut með Landssímanum. Aftur á móti er ekki frá því gengið í þessu plaggi sem hér er til afgreiðslu heldur er frá því gengið í frv. um söluna á Landssímanum. Þar hefði þurft að skilja þetta frá.

Ég vildi bara útskýra það hér þannig að það félli ekki niður þó að búið hafi verið að segja frá því hvernig málum var háttað í umræðunni um Landssímann. Mér finnst satt að segja að full ástæða sé til þess að gagnrýna þessa aðferð og tel að menn hefðu átt að leggja það á sig að koma þessu fyrir með því að taka þetta út úr Landssímanum þegar það mál var tekið til umfjöllunar og undirbúnings. Það hefur ekki verið gert og ég gagnrýni það og á því er fyrirvari okkar byggður að við erum ekki sátt við þessa gjörð.