Veiðar smábáta

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 21:16:05 (8438)

2001-05-19 21:16:05# 126. lþ. 129.97 fundur 578#B veiðar smábáta# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[21:16]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það ætlar að enda glæsilega þingið hjá hæstv. sjútvrh. Ofan í þvingunarlögin á sjómenn hér á dögunum á nú að kvótasetja meðafla krókaveiðibátanna, fækka sóknardögum og gera allt heila klabbið framseljanlegt. Sömu aðgerð var frestað í fyrra með þeim rökum hæstv. sjútvrh. að endurskoðunarnefndin væri að störfum. Enn bólar ekkert á niðurstöðu hennar. Rök hæstv. sjútvrh. frá því í fyrra hitta hann nú sjálfan fyrir.

Herra forseti. Hvað sem segja má um þessi fiskveiðistjórnarmál þá er ljóst að mörg byggðarlög sem eiga mjög í vök að verjast og hafa misst frá sér veiðiheimildir hafa bjargað sér á auknum veiðum smábáta. Byggðapólitískt er þetta því löðrungur framan í þær sjávarútvegsbyggðir, einkum þær minni sem fyrst og fremst eru háðar og treysta á þessa tegund útgerðar. Því verður ekki á móti mælt hvað sem menn vilja um þetta segja að öðru leyti.

Ég hlýt að segja, herra forseti, að þær eru kaldar kveðjurnar sem Vestfirðingar fá frá Alþingi núna á síðustu klukkustundum þinghaldsins. Sá landshluti sem á sannanlega í mestum erfiðleikum og hefur um langt árabil átt í byggðalegu tilliti. Ekki einasta á að gera harkalegar aðgerðir af þessu tagi gagnvart þeim hluta útgerðarinnar sem mestu máli hefur skipt þar upp á síðkastið, heldur á að þvinga sveitarfélög á Vestfjörðum til að láta frá sér arðvænlegustu eign sína, orkubúið, upp í skuldir við ríkið. Þetta eru kveðjurnar sem er verið að senda héðan frá Alþingi af hálfu stjórnarmeirihlutans gagnvart þessum byggðum. Það er bara þannig, herra forseti. Menn geta farið heim til sín með allar fínu byggðaáætlanirnar og öll fallegu orðin á pappírnum þegar verkin sýna það sem máli skiptir og þau eru svona.