Lax- og silungsveiði

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 21:34:04 (8446)

2001-05-19 21:34:04# 126. lþ. 129.40 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv. 83/2001, Frsm. meiri hluta HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[21:34]

Frsm. meiri hluta landbn. (Hjálmar Jónsson) (frh.):

Herra forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni að fjalla um sjötta lið breytinga sem meiri hluti landbn. gerði á frv. um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum. Undir nál. rita hins vegar aðeins sex af níu og kem ég að því síðar.

Í sjötta lagi leggur nefndin til strangari ákvæði um upphaf starfs í eldisstöð, þ.e. rekstur nýrrar stöðvar getur ekki hafist að neinu leyti fyrr en rekstrarleyfi er fengið. Þær sem nú starfa samkvæmt starfsleyfi, sbr. lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, skulu sækja um rekstrarleyfi innan árs frá gildistöku þessara laga.

Í sjöunda lagi fer ákveðið ferli í gang ef brotið er gegn ákvæðum laganna, þ.e. gegn ákvæðum sem lágu til grundvallar leyfisveitingu til rekstrarleyfishafa. Sinni leyfishafi ekki viðvörunum skal að endingu afturkalla rekstrarleyfi ef hann ekki lætur skipast af áminningum, fari hann út fyrir það sem lögin heimila. Ef um ásetning eða stórkostlegt gáleysi er að ræða af hálfu rekstrarleyfishafa getur veiðistjóri afturkallað rekstrarleyfi án undanfarandi viðvörunar eða frests til úrbóta. Ég hygg að við höfum með þessum ákvæðum lagt til mun heildstæðara ákvæði sem samrýmist betur vönduðum stjórnsýsluháttum.

Í áttunda lagi tökum við inn nýja grein, þ.e. 5. gr. frv. fellur niður en ný kemur í staðinn, stjórn veiðimála, Veiðimálastofnun og eftirlit. Nefndin fékk drög að tillögu frá landbrn. um breytingu á framangreindu eftirlitsákvæði frv. þar sem tekið er mið af athugasemdum ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur. Þar er tekið tillit til þeirra athugasemda að eftirlit skuli framkvæmt af faggiltum skoðunarstöðvum eins og framast er kostur. Jafnframt er tekið tillit til þeirra athugasemda að eftirlitsgjald skuli ekki fastsett í ákveðinni prósentutölu af brúttósöluverði heldur sé eðlilegra að rekstrarleyfishafar greiði raunkostnað af eftirlitinu. Þar er einmitt verið að árétta að ekki er um skattheimtu að ræða heldur kostnað sem hlýst af eftirlitinu.

Í níunda lagi er ákvæði um sleppitilraunir í smáum stíl. Lagt er til að áður en veiðimálastjóri taki ákvörðun um heimild til sleppitilraunar, t.d. það að setja lax í litla tjörn niður undan bæ handa börnum að veiða, skuli samt sem áður leita umsagnar Veiðimálastofnunar. Þá leggjum við til að þegar veiðimálastjóri leitar umsagnar Veiðimálastofnunar varðandi undanþágu til flutnings á eldistegundum sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi milli fiskeldis- og hafbeitarstöðva, um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði gefi tilefni til aukinnar hættu á erfðablöndun skuli jafnframt huga að neikvæðum vistfræðilegum áhrifum.

Í tíunda lagi eru tekin inn efnisleg viðmið sem landbrh. skal fara eftir þegar hann beitir heimild til að banna eða takmarka fiskeldi, hafbeit eða ákveðnar eldisaðferðir í einstökum fjörðum, flóum eða landsvæðum sem teljast sérlega viðkvæm fyrir slíkri starfsemi. Þannig fari sem sagt hæstv. landbrh. ekki um landið eins og landnámsmaður og helgi sér land eftir smekk heldur komi inn efnisleg viðmið. Til grundvallar ákvörðun ráðherra skal taka mið af því að vernda og hlífa villtum laxastofnum við erfðablöndun, fisksjúkdómum og neikvæðum vistfræðiáhrifum. Þá skal tekið tillit til staðsetningar eldisstöðva, stærðar þeirra, fjarlægðar þeirra frá veiðiám og veiðiverðmæti innan svæðisins, þ.e. fjarðar, flóa eða landsvæðis. Jafnframt skal litið til þess hvort svæði til fiskeldis séu staðsett í farleiðum lax og silungs og hvort straumar geti leitt sleppifisk í veiðiá.

Í ellefta lagi er kveðið á um að landbrh. geti ákvarðað svæðaskiptingu fiskeldis meðfram strönd landsins og heildarframleiðslu á hverju svæði. Það er að sjálfsögðu utan netlaga og gengið tryggilega frá því að ekki sé skörun milli ákvarðana hans annars vegar og hins vegar sveitarfélaga sem eiga lögsagnarumdæmi 115 metrum utan við stórstraumsfjöruborð.

Herra forseti. Í tólfta lagi er kveðið á um að landbrh. fari með yfirstjórn allra fiskeldis- og veiðimála. Samhliða þessu frv. hefur sjútvrh. lagt fram frv. um eldi nytjastofna sjávar. Til að forðast skörun milli ráðuneyta er lagt til að skýrt sé kveðið á um að landbrh. fari með yfirstjórn allra fiskeldis- og veiðimála samkvæmt lögum þessum.

Í þrettánda lagi er lagt er til að Veiðimálastofnun tilnefni aðila í fiskeldisnefnd í stað veiðimálastjóra. Er þá gætt samræmis við tilnefningu Hafrannsóknastofnunarinnar í nefndina frá sjávarútvegsgeiranum.

Í fjórtánda og síðasta lagi, herra forseti, er lagt er til að auka hlut Landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva í veiðimálanefnd þannig að þeir eigi þar tvo fulltrúa til mótvægis við Landssamband veiðifélaga sem á þar tvo fulltrúa fyrir. Með þeirri fjölgun verður nefndin skipuð sex mönnum í stað fimm áður og er því kveðið á um að ráðherra skipi formann nefndarinnar og skulu atkvæði hans ráða úrslitum ef atkvæði falla jöfn.

Herra forseti. Guðjón A. Kristjánsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Meiri hlutinn leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem tillaga er gerð um í sérstöku þingskjali og ég hef gert grein fyrir í stórum dráttum.

Undir álitið rita eftirfarandi þingmenn: Hjálmar Jónsson, Drífa Hjartardóttir, Jónína Bjartmarz, Guðjón Guðmundsson, Einar Oddur Kristjánsson og Kristinn H. Gunnarsson.

Ég vil að lokum þakka hv. þm. í landbn., bæði meiri og minni hluta, hjartanlega fyrir samstarfið í nefndinni og ekki síst varðandi þetta mikla mál sem við höfum verið að fjalla um lengi. Við urðum sammála um flestar þær breytingar sem orðið hafa í meðförum nefndarinnar þótt minni hlutinn vildi ganga lengra í einstökum greinum eins og þau gera vafalaust grein fyrir í máli sínu.