Suðurlandsskógar

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 22:12:43 (8451)

2001-05-19 22:12:43# 126. lþ. 129.41 fundur 589. mál: #A Suðurlandsskógar# (starfssvæði) frv. 89/2001, Frsm. HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[22:12]

Frsm. landbn. (Hjálmar Jónsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil geta þess, eftir ræðu hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur, að ég skýrði það rækilega hvaða landsvæði þetta væri. Skilningur minn og landbn. á því liggur þá fyrir í gögnum Alþingis og með þessum lögum.

Það eru takmarkaðir peningar lagðir í skógrækt á Íslandi. Ég tel ekki ástæðu til að farið verði sérstaklega og umfram önnur landsvæði að veita fjármuni til Reykjaness eða Suðurnesja, með fullri virðingu fyrir þeim. Það er heldur ekki meiningin að takmarka á nokkurn hátt metnaðarfullt starf sem unnið er að á því landsvæði. Það er víða verið að rækta skóg á Íslandi af einkaaðilum og félagasamtökum. Það er vel og það er gott. Þetta er eingöngu hugsað sem viðbót, að Suðurlandsskógaverkefnið komi inn sem viðbót, og það er heldur ekki rétt að engin lögbýli séu á þessu landsvæði.

Eins og ég segi þá er þetta viðbót. Fagleg ráðgjöf og ýmiss konar stuðningur frá Suðurlandsskógum kemur til með að nýtast Reykjanesinu vel. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það verður til bóta. Hitt bendi ég einnig á að það er áskilið í lögum um landshlutabundin verkefni og eins um Héraðsskóga að endurskoða skuli allt saman innan tveggja ára héðan í frá.