Suðurlandsskógar

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 22:17:17 (8455)

2001-05-19 22:17:17# 126. lþ. 129.41 fundur 589. mál: #A Suðurlandsskógar# (starfssvæði) frv. 89/2001, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[22:17]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Nokkur orð inn í þessa umræðu. Hér lá frammi till. til þál. um Suðurnesjaskóga, landshlutabundið verkefni, landgræðsla og skógrækt á Suðurnesjum sem nokkrir þingmenn, m.a. hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir stóðu að um metnaðarfulla landgræðsluáætlun á Suðurnesjum.

Ég trúi því að hægt sé að efla mjög landgræðslu og skógrækt á Suðurnesjum þrátt fyrir það að Suðurnesin fari inn í landshlutabundið verkefni eins og hér er í raun og veru verið að bjóða upp á. Þetta mun a.m.k. ekki trufla aðra landgræðslu eða aðra skógrækt því að lög um landshlutabundin skógræktarverkefni eiga fyrst og fremst við um lögbýli og ræktun á lögbýlum. Þetta eru sem sagt landgræðsluskógar og inni í þeim lögum er sú brtt. sem hv. þm. leggur fram um að landbrh. geti í samráði við skógræktarstjóra falið stjórn landshlutaverkefnis umsjón skógræktarverkefna þar sem einstaklingum og félagasamtökum er veittur stuðningur til skógræktar.

Þetta er sem sagt í öðrum lögum þannig að það þarf ekki að vera og á ekki að vera neitt sérstaklega inni í þessum lögum. Ef við ætlum að fara að blanda saman við landshlutabundin verkefni öðrum skógræktarverkefnum en lög ná yfir, t.d. einhverjum áhugamannafélögum eða skógræktarfélögum, þá erum við komin með þetta allt í uppnám að mínu viti.

Ég geri enga athugasemd við það að taka Suðurnesin inn í. Hugsanlegt er að einhver geti hafið skógrækt sem á þarna býli eða er eigandi að býli. Jörð getur farið í skógrækt og fengið fé út úr þessu verkefni. Þetta mundi a.m.k. aldrei skemma fyrir einu eða neinu öðru landgræðsluverkefni sem væri verið að setja í gang. Þetta er óháð því.

Varðandi mörkin, næsti bær við eru þá Austurlandsskógar í austri og Vesturlandsskógar í vestri og þarna verða auðvitað að vera skýr mörk. Við kölluðum eftir því í nefndinni að það væri alveg skýrt hvar mörkin ættu að liggja og það verður auðvitað að vera svo að skýr mörk séu á milli Vesturlandsskóga og Suðurlandsskóga en sérstök landgræðsluáætlun umfram lögbýli er þetta ekki.