Safnalög

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 22:26:32 (8458)

2001-05-19 22:26:32# 126. lþ. 129.31 fundur 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[22:26]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð varðandi safnalögin. Ég ætla rétt í upphafi að taka fram að samstarf við menntmn. hefur verið afar gott um þau mál öll sem tilheyra þessum pakka sem við köllum svo. Starfið hefur verið mikið í nefndinni. Það verður að segjast eins og er að formaður nefndarinnar, Sigríður Anna Þórðardóttir, á þakkir skildar fyrir lipurð og stjórn þeirra funda sem hafa verið fjölmargir um þessi mál og ég held að það sé ekki síst því að þakka að við höfum náð mjög góðri lendingu og nefndin stendur einhuga að baki því nál. sem hér liggur fyrir.

Einnig má taka fram að nefndin hefur í raun og veru sýnt það frumkvæði að gera ýmsar breytingar til verulegra bragarbóta, bæði á þessu frv. og þeim frv. hinum sem við höfum rætt í samhengi. Það verður að segja að það sé mjög til fyrirmyndar í störfum nefndarinnar að hún hefur ekki litið svo á að hún væri bundin algerlega þeim frv. sem komu frá hæstv. menntmrh., enda var það þannig í 1. umr. að hæstv. menntmrh. hvatti mig til þess að nefndin tæki þessi mál til verulegrar skoðunar og það hefur verið gert en ég held að við hér hafi verið náð býsna góðri lendingu þó að það liggi ljóst fyrir að auðvitað eftir kannski ekki allt of mörg ár þurfi síðan að gera hér hugsanlega einhverja bragarbót á eins og oft vill verða.

Í raun og veru er aðeins eitt atriði sem ég vildi vekja athygli á en það er að eitt þeirra höfuðsafna sem hér er nefnt er raunverulega ekki til og verður ekki fyrr en búið er að setja um það safn sérstök lög. Hér á ég við Náttúruminjasafn Íslands. Ég held að nauðsynlegt sé að vekja athygli á því að þær breytingar eru að verða að það safn sem heyrir nú undir umhvrn. verður fært undir menntmrn. með þeim lögum sem hér liggja fyrir.

Hins vegar er mögulegt að gera einhverja tengingu og í rauninni nauðsynlegt að gera einhverja tengingu yfir í umhvrn. þegar lög verða sett um Náttúruminjasafnið. Þess vegna vil ég vekja athygli á einni setningu sem er í nál. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Æskilegt væri að hafinn yrði undirbúningur að gerð þess frv. [þ.e. um lög um Náttúruminjasafn Íslands] sem fyrst og að það yrði samið í nánu samstarfi við umhverfisráðherra og í því yrði m.a. kveðið á um tengsl laganna við Náttúrufræðistofnun Íslands.``

Býsna mikilvægt er að þarna takist vel til því að hér er verið að gera þá grundvallarbreytingu að þetta safn heyri undir menntmrn. með samþykkt þessara laga en er nú undir umhvrn.