Húsafriðun

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 22:29:38 (8459)

2001-05-19 22:29:38# 126. lþ. 129.32 fundur 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[22:29]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um húsafriðun frá menntmn.

Ákvæði frv. eru sambærileg ákvæðum V. kafla þjóðminjalaga, nr. 88/1989. Megintilgangur þess er að skapa húsafriðun sérstöðu innan þjóðminjavörslunnar. Jafnframt er sjálfstæði yfirstjórnar þessa málaflokks aukið með því að gera húsafriðunarnefnd, sem nú er undirnefnd þjóðminjaráðs, að sjálfstæðri ríkisstofnun er heyri beint undir menntamálaráðherra. Þannig eru boðleiðir gerðar skýrari og stjórnsýsla málaflokksins treyst. Í frv. eru ekki lagðar til stórvægilegar breytingar á efnisreglum sem gilda um húsafriðun.

Nefndin bendir á að í 4. mgr. 16. gr. frv. er lagt til að varsla og reikningshald húsafriðunarsjóðs skuli falið bankastofnun nema húsafriðunarnefnd ákveði aðra tilhögun að fengnu samþykki menntamálaráðuneytisins. Ákvæði þetta er samhljóða 5. mgr. 46. gr. þjóðminjalaga, nr. 88/1989. Að mati nefndarinnar eru ákvæði af þessu tagi varðandi sjóði í eigu ríkisins úrelt og óþörf. Skv. 2. mgr. 18. gr. frv. er gert ráð fyrir að húsafriðunarnefnd beri ábyrgð á fjárreiðum húsafriðunarsjóðs. Í ljósi þess og með vísan til þeirrar þróunar sem orðið hefur í banka- og bókhaldsmálum á liðnum árum er að mati nefndarinnar óþarft að binda hendur stjórnar sjóðsins í þessu efni með beinum fyrirmælum í lögum. Eðlilegra er að húsafriðunarnefnd geti ákveðið sjálf hvernig hún leysir þennan þátt í starfsemi sjóðsins.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Menntmn. er einróma í afstöðu sinni til frv. en hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ritar undir nál. með fyrirvara.