Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 22:35:12 (8461)

2001-05-19 22:35:12# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[22:35]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (frh.):

Herra forseti. Umræðan um sölu á hlutafé í Landssímanum er á lokastigi, málið komið til 3. umr. Hér hafa verið rakin ítarlega rök fyrir því að málið sé á engan hátt tilbúið til þess að verða afgreitt af þinginu, þ.e. til að salan verði samþykkt.

Ég verð að láta þá von í ljós, herra forseti, að sú ákvörðun að það sé einungis á döfinni að selja allt að 49% hluta sé varanleg og 51% verði ekki seld, þrátt fyrir að hv. talsmenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. utanrrh. og hæstv. samgrh. hafi ekki treyst sér til þess að koma með óyggjandi svör í þeim efnum.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að vísa í lokaorðum mínum til nál. míns varðandi þetta mál, með leyfi forseta:

,,Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er andvígur sölu Landssíma Íslands hf. Fjarskiptaþjónusta er ein af grunnstoðum almannaþjónustu í landinu. Þessi þjónusta má ekki lúta þeim lögmálum markaðarins að arðsemiskrafa eiganda ein sé drifkraftur reksturs og þjónustu. Sjálfsagt er að gæta allra almennra hagkvæmni- og rekstrarsjónarmiða og gera kröfur um aukna þjónustu. Landssími Íslands á áfram að vera sameign þjóðarinnar og styrk hans á að nýta til hins ýtrasta til að byggja upp gott fjarskiptakerfi sem nær til allra landsmanna án mismununar í verði eða gæðum. Fari svo sem horfir og fyrirtækið verður selt er sú hætta yfirvofandi að þessi almannaþjónusta verði ofurseld einkareknu einokunarfyrirtæki, jafnvel í meirihlutaeign útlendinga.``

Herra forseti. Mér þykir vel hlýða að hafa það sem lokaorð í umfjöllun minni og þátttöku í þessu máli að vitna til orða góðs kunningja míns á Sauðárkróki í viðtali við DV í gær. Þar er hann spurður ásamt nokkrum öðrum einstaklingum hvað standi upp úr frá liðnum þingvetri.

Herra forseti. Ég vil með leyfi fá að vitna í Brynjar Pálsson, bóksala á Sauðárkróki, í orð hans sem birtast undir fyrirsögninni Vorhret og símasala, með leyfi forseta:

,,Vorhretið stendur upp úr, við Íslendingar erum ekki stærri þjóð en svo að útilokað er að við þolum sjómannaverkfall í 42 daga. Hrikalegt er að stjórnvöld þurfi að beita lögum á réttmæta kjarabaráttu sjómanna en ekki áttu sjómenn annarra kosta völ en fara í verkfall þegar þeir voru m.a. að skerpa á þeirri kröfu sinni að við öll eigum fiskinn í sjónum í sameiningu. Íslandi allt var kjörorð ungmennafélaganna. Um önnur afrek stjórnmálamannanna í vetur get ég sagt að ég hef alltaf verið mótfallinn sölu banka og símafyrirtækja og vísast mun sagan dæma þá skoðun mína rétta að slíkt verður landsbyggðinni dýrkeypt.``