Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 22:44:26 (8466)

2001-05-19 22:44:26# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[22:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég virði skoðanir sannfærðra hægri manna, frjálshyggjumanna sem vilja í aðalatriðum láta einkarekstur reka allt sem mögulegt er og sumir ganga svo langt að þeir sjá fyrir sér hlutverk ríkisins í því einu að semja við önnur ríki og halda uppi landvörnum og löggæslu. Ég virði slík sjónarmið en ég er þeim algerlega ósammála.

[22:45]

En hitt verð ég að segja að mér finnast ömurlegir þeir viðsnúningar, tækifærismennska og hentistefnupólitík, hentifánapólitík af því tagi sem hæstv. landbrh. hefur sérstaklega tekið að sér að halda uppi upp á síðkastið í þessum efnum. Fyrir fáeinum árum gerði hann út á það gagnvart fylgi í landinu að hann væri ákveðið akkeri félagslegra sjónarmiða í Framsfl. og væri að taka við forustu þar fyrir félagshyggjuarmi, vinstri armi. Hvar er sá maður staddur sem vildi ekki selja Búnaðarbankann, var algerlega á móti því að einkavæða Landssímann o.s.frv. Við heyrðum það áðan. Ég legg til að hæstv. landbrh. haldi sig í aðalatriðum við gúrkurnar og láti öðrum eftir að ræða um einkavæðingu.

Herra forseti. Við erum að koma að lokum umræðunnar um stærstu einstöku einkavæðingu Íslandssögunnar a.m.k. hingað til. Það er athyglisvert að svo dofnir eru menn orðnir eftir áralangt fár af þessu tagi að ekki hefur náðst upp í þjóðfélaginu almennilega virk umræða um þetta stóra mál og slíkur er hroki einkavæðingaraflanna orðinn að talað er af forakt um öll önnur sjónarmið en þau að allt svona lagað hljóti að seljast. Ég held að þeir menn hefðu gott af því að fara út á meðal þjóðarinnar. Ég fullyrði að þjóðin er ekki sammála þeim sem telja það sjálfgefið og einsýnt að ráðstafa almannaeignum með þessum hætti sem núverandi ríkisstjórn er að gera. Ég fullyrði það. Það eru djúprættar efasemdir um það og ekki síst á landsbyggðinni að þessi stefna sé mönnum til góðs. Það er ekki fólkið sem er í fyrirrúmi þegar menn eru að ryðja þessum breytingum á samfélaginu braut. Það er bara ekki þannig. Það er fjármagnið og arður þess sem er látið hafa forgang. Það er fjármagnið í fyrirrúmi, gróðinn í fyrirrúmi, hæstv. ráðherra, Guðni Ágústsson.

Það er athyglisvert í þessu máli að eiginlega eru allar aðstæður gegn því sem þyrfti að vera til að maður hefði sannfæringu fyrir því að breytingarnar gætu orðið til góðs. Það eru ákveðin leiðarljós, það eru ákveðin viðmið sem hægt er að nota til að spyrja sig að því hvort líklegt sé að breytingar af þessu tagi verði til góðs. Leiða þær til betri þjónustu, til lægra verðs, stuðla þær að jafnrétti og réttlæti í samfélaginu o.s.frv.? Er þetta fyrir hendi? Nei.

Hér er um fákeppnis- og einokunarstarfsemi að ræða í bland. Alls staðar hefur gefist illa að einkavæða slíka starfsemi.

Í öðru lagi. Er reynsla annarra þjóða af þessum breytingum eða nákvæmlega sambærilegum breytingum við sambærilegar aðstæður góð? Svarið er nei. En menn hlustuðu auðvitað ekkert á það. Reynslan frá löndum eins og Ástralíu, Nýja-Sjálandi, sumum fylkjum Bandaríkjanna og sums staðar í Evrópu er mjög slæm.

Í þriðja lagi fást menn ekki til að ræða þetta út frá aðstæðum Íslendinga. Það má ekki vekja lengur athygli á þeirri staðreynd að hér býr tæplega 300 þúsund manna þjóð í 103 þúsund ferkílómetra stóru landi. Þó ekkert annað kæmi til, herra forseti, þá finnst mér skrýtið að menn skulu ekki einu sinni fást til að velta því þó fyrir sér að suma hluti af þessu tagi gætum við Íslendingar þurft að hafa öðruvísi en eiginlega allar aðrar þjóðir í heiminum af því að við erum Íslendingar og erum jafnfá og raun ber vitni við jafnsérstakar, landfræðilegar og náttúrufræðilegar aðstæður.

Í fjórða lagi er það þannig að skilyrðin sem ríkisstjórnin sjálf hefur sett til þess að breytingar af þessu tagi geti gengið eðlilega fyrir sig eru ekki heldur uppfyllt en það veldur þessum mönnum engum áhyggjum. Ekki er raunveruleg samkeppni til staðar á þessum markaði. Það vita það allir. Að hluta til er um einokunarstarfsemi að ræða og að hluta til um markaðsdrottnandi risa með 85--90% markaðarins.

Fullt verð átti að vera annað skilyrði. Hvar er það? Það á ekki einu sinni að leita eftir því að fá fullt verð. Dreifð eignaraðild átti að vera þriðja skilyrðið. Það er varla til málamynda reynt að láta líta út fyrir að það standi til. Það er eiginlega hætt að þykjast í þeim efnum. Það er enginn áskilnaður í lögum um dreifinguna á eftirmarkaði og salan á meira að segja að fara fram strax í frumsölu að verulegu leyti til einstakra stórra aðila þannig að einn aðili gæti strax í byrjun keypt fjórðung Símans, t.d. erlendur aðili og átt vilyrði fyrir næstum öðru eins. Það er gefinn upp boltinn með það að einn einasti erlendur aðili gæti orðið svo til helmingseigandi þessa fyrirtækis á móti dreifðri eignaraðild innan lands og þar með mundi hann auðvitað ráða því.

Uppgjöf og niðurlæging Framsfl. í þessu máli er einstök vegna þess að sagan er svo skýr frá því að margir framsóknarmenn, öflugir talsmenn Framsfl., voru fyrir fáeinum missirum beinlínis andvígir því að hrófla við þessu fyrirtæki. Það liggur fyrir. Síðan er opnað í stjórnarsáttmálann með mjög varfærnislegu orðalagi á því að breytingar verði skoðaðar á kjörtímabilinu. Í þriðja lagi kom svo tímabilið, stóð kannski í tæpt ár, þar sem Framsókn var á móti því að selja grunnnetið en var að öðru leyti orðin jákvæð gagnvart því að selja Símann.

Svo kom í fjórða lagi tímabilið, það var örstutt þar sem það átti að fara mjög varlega í þetta. Maður gat búist við frv. sem heimilaði kannski að opna aðeins inn í þetta með 15% eins og í bönkunum. Svo kom lokakaflinn, frv. um að heimila samgrh. Sjálfstfl. að selja 100%. Endir sögu. Fullkomin 100% uppgjöf, niðurlæging. Framsfl. liggur eins flatur og nokkur kostur er. Rökin: Framsfl. uppgötvaði fjarskiptalögin.

Ég hlýt auðvitað að óska einkavæðingaröflunum í Sjálfstfl. og á bak við Sjálfstfl. til hamingju með sigurinn, herra forseti. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson, til hamingju með sigurinn. Þetta mun heita ippon eða hvað það er á máli fjölbragðaglímu, þ.e. fullnaðarsigur í einu bragði, og Framsókn liggur á gólfinu.

Það er gaman, herra forseti, og þó ekki að einmitt þessa dagana, þessa klukkutímana, sem við ræðum þessa algeru uppgjöf Framsfl. og fullnaðarsigur sjálfstæðismanna kemur skýrsla Samkeppnisstofnunar, hinnar virðulegu og ágætu Samkeppnisstofnunar sem nýtur álits og trausts alls staðar í þjóðfélaginu og ekki síst á Alþingi um fákeppni og samþjöppun í íslensku viðskiptalífi. --- Ég óska hæstv. utanrrh. góðrar ferðar. --- Þar er m.a. sérstaklega dregin athyglin að því að í hinum nýju greinum atvinnulífsins sem fjarskiptin eru hluti af vegna þeirrar þróunar sem þar er, þar er mikil og hröð samþjöppun í upplýsinga- og hátæknigreinum. Er einhver ástæða til að ætla annað en nákvæmlega þessi verði þróunin í framhaldinu á þessum markaði, ekki síst vegna þess að ríkisstjórn Íslands er svo einstaklega ofstækisfull í þessum aðgerðum að hún setur engar kvaðir eða skilyrði af neinu tagi í tengslum við söluna. Í mörgum tilvikum hafa fyrirtæki af þessu tagi erlendis verið einkavædd með þeim hætti að sett hefur verið inn í þau sérstakt hlutabréf sem verður hluti af hlutabréfaeign fyrirtækisins um aldur og ævi og því fylgir ákveðinn íhlutunarréttur. Meira að segja nýfrjálshyggjuliðið á Nýja-Sjálandi setti inn í símann sérstakt hlutabréf sem kallað er Kíwí-bréfið. Við gætum kallað okkur þá Íslendingabréfið, (Gripið fram í: Geirfuglsbréfið.) geirfuglsbréfið og því mundi fylgja ákveðinn íhlutunarréttur um það t.d. að stjórn fyrirtækisins yrði skipuð með tilteknum hætti. Það mætti aldrei breyta ákveðnum atriðum í samþykktum þess o.s.frv. Ekkert af þessu tagi er sett inn í einkavæðingarfrv. Það sýnir betur en margt annað, herra forseti, ofstækið sem þarna er á ferðinni. Í raun og veru hversu hroki þeirra sem ráða för í þessum efnum er alger. Þetta er eitt af örfáum dæmum sem ég veit um þar sem menn hafa verið svo skeytingarlausir um það sem á komandi árum gæti átt eftir að mæta viðskiptavinum þessa fyrirtækis, þjóðinni, að menn hafi ekki einu sinni fyrir því, menn sýni ekki lit til þess að reyna að tryggja ákveðin grundvallaratriði. Því er vísað á fjarskiptalög og Samkeppnisstofnun, sem nýtur stundum mikils álits, stundum ekki, eftir því hvað ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hentar hverju sinni. Ýmist er hún haldreipi hið besta og mesta eða skýrslur hennar eru ónothæfar og þar er ekki komist að réttum niðurstöðum, svarað vitlausum spurningum o.s.frv. eins og við höfum heyrt undanfarna daga. Ef eitthvað er að aka seglum eftir vindi, herra forseti, þá er það það hvernig þessi hæstv. ríkisstjórn notar sér á víxl að upphefja eða niðurlægja stofnanir af því tagi.

Hvað átti að gera, herra forseti? Það átti að beita afli þessa fyrirtækis til að halda áfram því brýna verki að betrumbæta fjarskiptakerfið í landinu og tryggja öllum landsmönnum áframhaldandi á næstu árum í gegnum þær miklu breytingar sem eru að ganga yfir í tæknilegum efnum og af ýmsum ástæðum, fyllstu þjónustu eftir því sem nokkur kostur var án tillits til búsetu af jöfnum gæðum og með jöfnum aðgangi eftir því sem nokkur kostur er. Það er mikilvægt jafnréttisatriði í þessu landi að þjóðin öll hafi aðgang að þessari mikilvægu undirstöðutækni sem má líkja við menntakerfið, má líkja við vegakerfið og ýmsar þessar undirstöðuþarfir í þjóðfélaginu.

Í öðru lagi átti --- og um það hefði getað tekist ágæt samstaða ef einhver vilji hefði verið til þess að láta á það reyna --- að skoða hvaða breytingar á rekstri og samsetningu þessa fyrirtækis gat verið skynsamlegt að gera, m.a. út frá breyttum aðstæðum í samkeppnislegu tilliti. Vel gat komið til greina að kveða á um það að einstakir þættir starfseminnar yrðu færðir yfir í sjálfstæð dótturfélög. Það tel ég alveg koma til greina. Ýmsar slíkar breytingar gátu komið til móts við þau sjónarmið að þetta fyrirtæki yrði kannski ekki rekið án árekstra með algerlega óbreyttu formi að öllu leyti. Það er enginn endilega að biðja um það. En að tryggja þessa mikilvægu undirstöðuþjónustu og jafnrétti landsmanna og koma í veg fyrir að það gerist hér sem hefur alls staðar orðið fylgifiskur einkavæðingar af þessu tagi að strjálbýlið líði fyrir hana. Það átti að reyna að gera. Það er enginn vilji til þess hér því miður, herra forseti.

Stundum er sagt að sagan endurtaki sig og það er líklega býsna mikið til í því. Þegar fjarskiptabyltingin hófst fyrir alvöru kringum önnur síðustu aldamót, þá voru það einkaaðilar eins og á mörgum fleiri sviðum atvinnurekstrar sem voru fyrirferðarmestir í þeim efnum. Svo gerðust hlutir sem leiddu það af sér, kreppan mikla, hildarleikur seinna stríðsins, að þessi þjónusta og margar aðrar slíkar sem vörðuðu innviði samfélaganna voru teknar yfir af opinberum aðilum, ríki og sveitarfélögum og samfélögin voru byggð upp, innviðir samfélaganna voru byggðir upp í Evrópu, Ameríku og víðar og að því komu stjórnmálamenn úr öllum áttum. Um áratuga skeið var ágæt samstaða um þá pólitík að þetta væri skynsamlegt og það lagði grunninn að því velmegunarskeiði sem menn hafa síðan búið að í þessum löndum. Síðan náðu önnur sjónarmið yfirhöndinni, því miður, og þau hafa ríkt um skeið. Nýfrjálshyggjukreddan heltók vestræna stjórnmálamenn og sagan lagði af stað í nýjan hring. Nú tel ég að sem betur fer sjáum við fyrir endalokin á þessu skeiði.

Það er að vora úti í þjóðfélaginu, herra forseti, og það mun líka vora pólitískt. Nýfrjálshyggjan er á undanhaldi. Hún hefur verið sigruð í mörgum löndum heimsins. Eftirlegukindurnar halda völdunum á Íslandi en þær munu ekki gera það lengi enn. Sagan segir okkur það líka að menn halda ekki völdum að eilífu og allra síst þeir menn sem fara með þau eins og núv. ríkisstjórn hefur gert.