Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 03. október 2000, kl. 20:36:32 (13)

2000-10-03 20:36:32# 126. lþ. 2.1 fundur 9#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, SJS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 126. lþ.

[20:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

  • Það er skrítið
  • hvað lítill, útskorinn snældustokkur,
  • sem ungur maður hefur leikið sér að,
  • getur lengi vakað í huga hans.
  • Þegar fyrsta, annað og þriðja högg uppboðshaldarans
  • skall á blámálaðri brík hans,
  • var eins og lítill drengur væri barinn
  • fyrir það, sem hann hafði ekki gert.
  • Fóstra grét, þegar húsið okkar var selt,
  • og víst munum við rökkur kvöldsins áður,
  • þegar við gengum á fund sýslumannsins,
  • eins og við tryðum ekki lengur auglýsingum símastauranna.
  • Fátækt fólk kveður eitt þorp og heilsar öðru,
  • hús þess og snældustokkur er boðinn upp
  • og sleginn hæstbjóðanda,
  • kindur þess eru seldar á fjalli.
  • Og þegar lítill drengur spyr:
  • Fær lambið hennar Kollu að lifa í haust?
  • veit enginn nokkurt svar.
  • Herra forseti. Góðir landsmenn. Þannig yrkir Jón úr Vör í kvæði sínu Uppboð. Næst í bókinni 100 kvæði, sem Einar Bragi valdi ljóð í, kemur Fátækt fólk.

    Jón úr Vör var fæddur 1917 og hann væri því 83 ára ef honum hefði enst aldur. Hann var með öðrum orðum af þeirri kynslóð Íslendinga sem tók út manndómsþroska sinn í kreppunni miklu og hann kynntist af eigin raun og allt í kringum sig sárri fátækt vestur við Patreksfjörð á uppvaxtarárunum eins og glöggt endurspeglast í ljóðum hans og ekki síst í ódauðlegum bernskuminningum í ljóðabókinni Þorpinu.

    Það voru jafnaldrar Jóns úr Vör og fólk 10--15 árum yngra eða nokkrum árum eldra sem safnaðist saman á Austurvelli í gær. Það var kynslóðin sem er vaxin upp úr sáru fátæktarhlutskipti alls almennings á Íslandi á fyrstu áratugum þessarar aldar. Og það var kynslóðin sem kom Íslandi þangað sem það er komið í dag.

    Herra forseti. Það er dapurlegt til þess að vita að einmitt þessi kynslóð skuli endurtekið þurfa að efna til fjöldamótmæla til að minna á hlutskipti sitt og knýjast sanngjarns hlutar af batnandi þjóðarhag undanfarinna ára. Tekjur aldraðra hafa sannarlega dregist aftur úr hlutfallslega og þyrftu nú að hækka upp undir 20% ef þær ættu að halda hlutfalli sínu eins og það var í upphafi áratugarins.

    Ef eitthvað er hafa öryrkjar fengið enn þá verri útreið. Að mínu mati, herra forseti, er einn ljótasti smánarbletturinn á velferðarkerfinu íslenska, eins og það hefur verið útleikið eftir hremmingar sl. tíu ára, smánarlega lág samfélagsleg laun öryrkja, jafnvel fólks sem ungt að árum hefur misst starfsorkuna svo ekki sé talað um hina niðurlægjandi tengingu bótanna við laun maka.

    Það er þannig, herra forseti, að góðærinu, sem allar ræður Davíðs Oddssonar forsrh. hefjast á að lýsa, og sú sem hér var flutt var engin undantekning, er harla misskipt. Ákveðnir hópar hafa sannarlega efnast hratt á undanförnum árum. Hlutur þeirra hefur síðan verið gerður enn betri, m.a. með skattalegum ívilnunum sem taka til fjármagnsgróða og hlutabréfaviðskipta á sama tíma og skattbyrðin hefur sannanlega þyngst á lægstu launum gegnum það að skattleysismörk hafa ekki fylgt verðlagsþróun.

    Því til viðbótar, herra forseti, er það svo alvarlegt áhyggjuefni að góðærið sjálft hefur í æ ríkara mæli verið að breytast í hreint eyðslugóðæri. Í sjálfu sér er vissulega gott, eins og hér hefur þegar verið tekið fram, að ríkissjóður sé rekinn með góðri afkomu og því fögnum við sem viljum öfluga samneyslu á komandi tímum. En það segir aðeins lítinn hluta sögunnar að stæra sig af slíku eins og er helsta framlag ríkisstjórnarinnar til þjóðmálaumræðunnar þessa dagana ef ekki er minnst á hitt að sveitarfélögin, atvinnulífið og ekki síst heimilin í landinu eru að safna skuldum. Ríkisstjórnin sýnir ótrúlegt tómlæti gagnvart vanda annarra aðila í samfélaginu. Hænufet hafa verið stigin með löngu millibili nú upp á síðkastið til að bæta hag öryrkja og aldraðra en oftar en ekki tekin jafnharðan aftur t.d. með breytingum og hækkun lyfjakostnaðar eða öðrum slíkum hlutum. Dregið er dár að sveitarfélögunum og þau jafnvel sökuð um óráðsíu frekar en horfast með raunsæi í augu við það að þeim hafa verið færð verkefni umfram tekjur á undanförnum árum og eiga við mikinn vanda að glíma.

    Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill hefja endurreisnarskeið í velferðarmálum sem taki jafnt til kjara þeirra sem njóta tryggingakerfisins sem og reksturs mikilvægra stofnana og samfélagsþátta. Við höfnum einkavæðingu velferðarþjónustunnar, við höfnum því að umönnun sjúkra og aldraðra og fræðsla barnanna okkar sé gerð að uppboðsvöru á markaðstorgi gróðahyggjunnar.

    Vel á minnst, herra forseti, þorpið hans Jóns úr Vör á nú heldur betur í vök að verjast. Frammistaða ríkisstjórna á Íslandi undanfarin ár í byggðamálum er ekki til að hrópa húrra fyrir. Við leggjum til á þessu þingi að sérstakt byggðaþing verði haldið á komandi sumri sem fáist eingöngu við það verkefni að ræða það ófremdarástand sem er uppi í byggðaþróun í landinu. Ég held að þeim tíma væri vel varið þó að það væru þrjár vikur sem Alþingi sæti hér við þetta og þetta eitt, og kallaði til liðs við sig aðila utan að úr þjóðfélaginu, talsmenn sveitarfélaga og byggðarlaga, félagasamtaka, atvinnulífs og aðra þá sem þarna gætu lagt eitthvað af mörkum.

    Það er svo, herra forseti, að Sjálfstfl. var búinn að fara með byggðamál í átta ár. Undir öruggri forustu hans hafði samfellt gengið á hlut landsbyggðarinnar í tvö heil kjörtímabil. Þá sáu ráðamenn á þeim bæ að ekki varð við svo búið unað og létu Framsfl. taka við málaflokknum. Ekki hefur betra tekið við síðan.

    Síðast bar það til tíðinda að formaður stjórnar Byggðastofnunar og formaður þingflokks Framsfl., Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Vestf., fór ekki bara yfir bæjarlækinn til að sækja vatnið, heldur fór hann yfir allt Atlantshafið til Brussel til þess að finna byggðastefnuna. Hann kom heim með það bjargráð að nú skyldu menn ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna og þá mundi hagur landsbyggðarinnar vænkast. Hugmyndin gengur væntanlega út á það að eftir að Íslendingar hafa borgað eina 8 eða 10 milljarða í sjóði Evrópusambandsins þá takist þeim e.t.v. að reita til baka einhverja milljarða í styrki og færa þá út á land.

    Nei, herra forseti, vatnið þarf ekki að sækja svona langt. Vilji Íslendingar leggja aukið fé til aðgerða í byggðamálum er ástæðulaust að senda krónurnar um Brussel og fá einhverjar leifar af þeim til baka. Við getum ákveðið slíkt sjálf og þurfum þá ekki heldur að hringja til Brussel eða Frankfurt og biðja þá um að fella evruna ef illa skyldi ganga í sjávarútvegi á Vestfjörðum.

    [20:45]

    Herra forseti. Frændur okkar Danir höfnuðu fyrir nokkrum dögum í sögulegri atkvæðagreiðslu að taka upp evruna og ganga í Myntbandalag Evrópusambandsríkja. Þessi úrslit voru sigur fyrir lýðræðið og þarna höfnuðu Danir auðvitað ekki aðeins evrunni heldur einnig áframhaldandi samruna og ríkismyndun með yfirþjóðlegu og ólýðræðislegu og miðstýrðu valdi í Brussel. Þessi úrslit mættu verða mönnum umhugsunarefni. Þessi úrslit ættu að verða Halldóri Ásgrímssyni og Framsfl. og Össuri Skarphéðinssyni og Samfylkingunni, sem hafa viljað keyra í gang umræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu, nokkurt umhugsunarefni.

    Kaflinn um Evrópumál í ræðu hæstv. forsrh. er stórmerkur, einkum vegna þess að þegar síðast fréttist voru þeir í sömu ríkisstjórn, utanrrh. og forsrh. Forsrh. telur að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gangi vel og að Ísland sé í sterkri stöðu en utanrrh. má helst aldrei sjá svo hljóðnema, hvorki innan lands né utan, að hann sé ekki kominn að honum til þess að útmála hversu erfitt þetta sé nú allt saman og staða Íslands að verða veik hvernig sem það á svo að styrkja samningsstöðu okkar eða stöðu almennt í slíkum samskiptum. Hitt kann að vera að fyrir þetta komist utanrrh. á spjöld sögunnar sem eini herforinginn í mannkynssögunni sem gefur út yfirlýsingar til andstæðinganna, jafnvel lýgur því upp á sjálfan sig að hann hafi misst vatn í púðrið.

    Herra forseti. Frú Madeleine Albright var hér á ferð á dögunum og bar m.a. upp það erindi að Bandaríkjamenn vildu draga úr útgjöldum og umsvifum sínum hér. Þessu erindi frúarinnar er sjálfsagt að taka vel. Nú stendur prýðilega á til þess að fara í viðræður við Bandaríkjamenn um að þeir hverfi nú með her sinn úr landi brott og menn sameinist um aðgerðir til þess að gera þær breytingar sem auðveldastar. Liður í slíkum samningum á að vera að gera stórátak í að hreinsa upp menguð svæði og bæta önnur umhverfisspjöll eins og kostur er eftir hina erlendu hersetu.

    Herra forseti. Eins og við þurfum að muna eftir kynslóð Jóns úr Vör og reyna að greiða henni þakkarskuldina þurfum við líka að muna eftir hinni sem er að vaxa úr grasi. Erum við að búa að henni eins vel og við getum miðað við öll þau efni sem við höfum í dag? Og þá á ég ekki við fínar tölvur eða leiktæki og tól, af því eiga flestir nóg. Ég á við aðra hluti sem tengjast því að við spyrjum okkur: Hvers vegna mitt í allri auðlegðinni er þunglyndi, eru sjálfsvíg og fíkniefnaneysla jafnútbreidd vandamál og raun ber vitni?

    Annað mál vil ég nefna, herra forseti, þar sem hlutirnir eru ekki í lagi hjá okkur Íslendingum og það eru hin skelfilegu umferðarslys, þær miklu mannfórnir sem við erum þar að færa, ekki síst hvað varðar ungt fólk og þar sem þróunin á Íslandi sker sig úr því sem er í nálægum löndum.

    Herra forseti. Hvað stoðar það manninn að berjast við það ævina á enda að eignast allan heiminn ef hann glatar við það sjálfum sér? Hvað hefur gildi að lokum þegar við gerum upp líf okkar? Er það auður, völd, frægð? Er það neyslan og veislurnar eða er það ekkert af þessu heldur hitt að hafa lifað til góðs og gagns sjálfum sér og sínum, ræktað sambönd við ættingja og vini og gætt þess að slíta ekki ræturnar í eða við samfélag og heimabyggð?

    Jón úr Vör, sem hér var vitnað til í upphafi, kemst að þessari niðurstöðu í lokaerindi kvæðisins Ég er svona stór:

  • Og loks, er þú hefur unnið allan heiminn, vaknar þú einn morgun í ókunnri borg, þar sem áður var þorpið, gamalmenni við gröf móður þinnar. Og þú segir:
  • Ég er svona stór.
  • En það svarar þér enginn.
  • Góðar stundir.