Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 03. október 2000, kl. 20:49:26 (14)

2000-10-03 20:49:26# 126. lþ. 2.1 fundur 9#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, SvH
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 126. lþ.

[20:49]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Nóbelsverðlaunahafinn, Günter Grass, mælti svo á bókmenntahátíð í Reykjavík á dögunum: ,,Það gildir hið sama um kapítalistana og kommúnistana: Þeir trúa sinni eigin lygi.``

Ekki eru tök á að fara mörgum orðum um vegferð sósíalismans og kapítalismans á öldinni sem senn er á enda kljáð. Væntanlega geta menn orðið sammála um að framkvæmd kommúnista á sósíalisma hafi komið á þá þjóðmálastefnu skelfilegu óorði. En hvað tók við í Sovétríkjunum þegar kommarnir voru neyddir til að hætta að trúa eigin ósannindum? Kapítalismi, að sjálfsögðu, undir heitinu umbótastefna Jeltsíns. Mafíósar Rússlands hrömmsuðu undir sig lungann úr auðæfum landsins í skjóli þeirrar stefnu og trúðu eigin uppspuna um að yfirráð þeirra stefndu ríkinu til farsældar. Sjálfur tók umbótamaðurinn Jeltsín ófrjálsri hendi milljarða af lánsfé frá öðrum löndum til handa sér og fjölskyldu sinni.

En hvernig skyldi kapítalistunum vegna á Íslandi undir hugsjónastjórn Hannesar Hólmsteins? Hvernig skyldi umbótastefna Davíðs og Halldórs líta út?

Upp úr miðri öldinni sem er að líða hófu frjálslyndir hófsemdarmenn, eins og Ólafur Björnsson prófessor, að boða mannúðlegan kapítalisma sem nefndur var fjálshyggja og byggði á minnkandi ríkisafskiptum og fjálsum markaði fyrst og fremst og frelsi einstaklinganna til orðs og æðis sem verið hafði æðsta boðorð í stefnu Sjálfstæðisflokksins meðan frjálslyndir réðu þar ríkjum.

En framkvæmd kapítalistanna á frjálshyggjunni á Íslandi hefur að sínu leyti orðið á sama veg og kommúnistum í Sovétríkjunum fór framkvæmd sósíalismans úr hendi. Nú er frjálshyggjan í höndum Sjálfstæðisflokksins snúin upp í stefnu sérhyggju og sérhagsmuna og upprunalegt innihald frjálshyggjunnar rokið út í veður og vind. Þegar foringjarnir predika að frjálshyggjustefna þeirra sé farsældarstefna til handa íslenskri þjóð þá trúa þeir vafalaust sínum eigin ósannindum. Og foringi Framsóknar fetar dyggilega í fótspor Jeltsíns, þar sem hann hefur sölsað undir sig og fjölskyldu sína milljarða af þjóðarauðlind sjávarútvegsins. Og innherjaviðskiptin blómstra þar sem yfirmenn í bönkum og fleiri fyrirtækjum hins opinbera láta greipar sópa um almannafé sem hundruðum milljóna nemur. Einna fyrstur til að ríða á það vað var fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, sællar minningar. Engin tilraun er gerð til að stöðva þessa ósvinnu enda margt sjálfsagt óunnið í einkavinavæðingunni.

Kapítalismi í ógeðslegri mynd hefur náð heljartökum á íslensku efnahagslífi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur svikið sína fyrri frjálslyndu stefnu í grundvallaratriðum. Kjörorðinu ,,Stétt með stétt`` hefur verið varpað fyrir ofurborð og flokkurinn gerst verkfæri í höndum sérhagsmunaklíkna. Auðvald --- í höndum örfárra --- hefur náð undirtökunum og Framsóknarflokkurinn gengur gírugur undir jarðarmenið. Kapítalistarnir eru eins og kommúnistarnir, sagði Günter Grass, þeir trúa sinni eigin lygi. Eða skyldu kapítalistarnir íslensku ekki trúa því að við búum við hagkvæmasta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi, enda þótt atvinnugreinin stefni bersýnilega lóðbeint á hausinn? Þeir trúa því áreiðanlega að fiskveiðikerfið hafi byggt upp fiskstofnana við landið, enda þótt staðreyndirnar sýni óvefengjanlega að öllum aðalstofnum hefur hrakað síðan kerfið var tekið upp. Þjónar auðvaldsins í ríkisstjórnarstólunum hljóta að trúa því eins og nýju neti að fiskveiðikerfið efli og styrki byggðir landsins þótt við blasi hrun í heilum landshlutum.

Kapítalistarnir og þjónar þeirra trúa þeim öfugmælum að þá farnist þjóð best efnahagslega þegar auðurinn er kominn á sem fæstar hendur og allur almenningur svínbeygður undir gerræði þeirra og græðgi.

En kosningaáróðri sínum frá síðustu kosningum eru forkólfar stjórnarflokkanna hættir að trúa: Að þeir mundu beita sér fyrir að ná sáttum í fiskveiðimálum. Ósannindum sem allir fjölmiðlar gengu undir og skutu þannig örlagamálinu undan dómi kjósenda. Nú tala þeir opnum munni um það, lénsherrar og ráðherrar, að um sjávarútvegsmál verði aldrei sátt á Íslandi. Hvers vegna skyldi sá söngur sunginn? Vegna þess að öll sætt gengi á sérhagsmuni sægreifanna og það taka þeir ekki í mál, né heldur handbendi þeirra í ríkisstjórn.

Þegar ég vitna nú til Günters Grass um trú kapítalistanna á eigin lygi er hér á ferðinni nýtt dæmi úr stefnuræðu Davíðs Oddssonar sem veldur mér vökum. Skyldi Davíð trúa því sem segir orðrétt efst á bls. 4 í stefnuræðu hans og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Þess hefur verið gætt að kaupmáttaraukningin nái einnig til þeirra sem ekki semja um kjör sín, svo sem aldraðra og öryrkja og hafa öll þau skref sem ríkisstjórnin hefur stigið undirstrikað þann vilja hennar að varðveita og efla kaupmátt þessara hópa á kjörtímabilinu.``

Skyldi Davíð sjálfur trúa þessu? A.m.k. ber hann þetta á borð fyrir fólkið sem mætti hér á Austurvelli við þingsetningu í gær, án þess að blikna eða blána.

Í febrúar á þessu ári gerði Rauði kross Íslands kjarakönnun meðal landsmanna um stöðu þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Í ljós kom að bilið milli fátækra og þeirra sem betur mega sín fer breikkandi. Sífellt fleiri þurfa að leita hjálpar til að geta fleytt fram lífi sínu. Hópar láglaunafólks, einstæðinga, öryrkja og aldraðra búa við svo þröngan kost að um sára fátækt er að tefla. Þetta eru staðreyndirnar sem við blasa á hinu auðuga Íslandi. Hvers vegna? Vegna þess að auðvaldið hefur náð undirtökum og þjónar undir sína menn. Það er stefnuskráratriði nýfrjálshyggjunnar, thatcherismans, að minnka samfélagsþjónustuna. Liður í framkvæmd þeirrar stefnu er m.a. milljarða hækkun lífsnauðsynlegra lyfja, sem fátækir hafa ekki lengur ráð á að kaupa. Og svo stendur hér höfuðpaur kapítalistanna og slengir því framan í þjóðina að öll þau skref sem ríkisstjórnin hafi stigið undirstriki þann vilja hennar að varðveita og efla kaupmátt þessara hópa. Mundi forsætisráðherrann mæla svo ef hann tryði ekki eigin orðum? Vafalaust ekki og er hér enn ein sönnun á orðum Günters Grass.

Í innsetningarræðu sinni 1. ágúst taldi forseti Íslands sig tilneyddan að fara langt út fyrir þann ramma, sem gilt hefir um forsetaembættið og sátt ríkt um, til að vara við misskiptingu gæðanna, vaxandi hættumerkjum um fátækt og bjargarleysi, einkum hjá öldruðum.

Halldór Ásgrímsson og Morgunblaðið boða nú komu nýrra frelsara í íslensku efnahagslífi. Besta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi hefur leikið íslenskan sjávarútveg þannig að stefnir í bráðan voða. Á síðustu fimm árum hafa skuldir hans aukist um 80 þús. milljónir kr. og nema samtals 175 þús. milljónum kr. Það fer því að sneiðast um getu og vilja fjármálastofnana innlendra að lána til sjávarútvegsins. Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál fyrir þá sem eiga óseldan kvótann sinn eins og Halldór Ásgrímsson, sem fær kannski í arfahlut eitt þúsund milljóna virði í aflaheimildum, sem hann þarf að selja og stinga andvirðinu í eigin vasa eins og allir aðrir sem gjafakvóta hafa þegið af þjóðareigninni. Þá væri ekki ónýtt að hafa erlent fyrirtæki á borð við Unilever við höndina að versla við og undirstinga sérstaklega áður en hann hverfur úr embætti utanríkisráðherra.

Íslendingar eiga einhver gjöfulustu fiskimið í heimi. Vegna fiskimiðanna fyrst og fremst er landið byggilegt og svo mun enn verða um ókomin ár. Til þessarar einstæðu auðlindar, sem mun vaxa að verðmætum ef rétt er á haldið, mæna auðvaldsherrar Vestur-Evrópu gráðugum augum. Ein aðalástæðan fyrir því að Ísland getur ekki gerst aðili að Evrópusambandinu er að við mundum missa yfirráð okkar yfir fiskimiðunum. Að opna evrópskum auðvaldshákörlum leið inn í íslenska fiskveiðilandhelgi er ótrúleg glópska og jafnbrýnir landráðum.

En allt verður að víkja fyrir sérhagsmunum lénsherranna. Það þarf engan spámann til að segja fyrir um að núverandi fiskveiðikerfi mun innan tíðar ríða sjávarútveginum á slig. Milljarðaskuldirnar hrúgast upp og afkoman er undir núlli. En nauðsyn gjafakvótaþeganna ber mest að meta. Auðvitað má ekki breyta kerfinu meðan þeir eru að koma kvótanum sínum í lóg. Selja hann og hverfa með andvirðið skattfrjálst úr landi --- og þannig aðallega er sjávarútvegurinn mergsoginn.

Stefnuræða forsætisráðherrans var sama marki brennd og allt hans tal um langa hríð, mestöll skrum og sjálfshól, en siglt fram hjá skerjum staðreynda ef ekki drýpur af þeim smérið. Tími minn leyfir ekki að eltar séu ólar við upplokið, en af ýmsu er að taka.

Hún var einkar fróðleg, leiksýningin, sem færð var upp á fjalirnar þegar auðlindanefnd hóf fyrsta þátt sjónarspilsins upp í forsætisráðuneyti, en LÍÚ-herrarnir luku leikritinu hjá sér og upplýstu hvað þeir höfðu samið um við ríkisstjórnina á bak við leiktjöldin. Sægreifarnir fallast á veiðigjald, enda verði þeim fengin í hendur öll yfirstjórn þeirra fjármuna og umfang, en sjómenn látnir borga. Sem sagt: Lögin og framkvæmd þeirra færð í þeirra hendur, stjórnsýslan sjálf að þessu leyti. Það breytir sjálfsagt ekki miklu frá því sem verið hefur í 17 ár þótt völd og yfirstjórn fiskveiða yrðu formlega flutt úr ráðuneytinu til LÍÚ. Allir vita hvar völdin hafa verið. Enda klappaði sjávarútvegsráðherrann fyrstur þegar farsanum lauk.

Sáttaboð lénsherra LÍÚ þýðir á mannamáli að þeir bjóðast til að láta vinnumenn sína greiða veiðigjald sem þeir ráði með öllu yfir gegn því að fá ígildi eignarhalds á auðlindinni. Með tillögu sinni um veiðigjald varðaði auðlindanefnd veginn fyrir ríkisstjórnina að gera þjóðareign sjávarauðlindarinnar að endanlegri þjóðargjöf til örfárra útvalinna. Og forsætisráðherra fagnar því skálkaskjóli að sjálfsögðu, enda þarf hann nú ekki að hrekjast úr landi til Kanarí heldur getur hann og hans flokkur lifað í vellystingum praktuglega í skjóli og á framfæri fiskveiðifurstanna.

En eigi veldur sá er varir, segir í Grettlu. Ef stjórnarherrarnir halda svo fram stefnunni sem horfir, að fótumtroða frumburðarrétt alls almennings í landinu til auðlindar sjávarins munu þeir kveikja þá elda sem heitast munu brenna á þeirra eigin baki. --- Takk fyrir áheyrnina.