2000-10-03 21:52:32# 126. lþ. 2.1 fundur 9#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, KolH
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 126. lþ.

[21:52]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það fór ekki mikið fyrir umhverfismálunum í ræðu hæstv. forsrh. Nei, hann minntist ekki á þau og mér er til efs að hann hafi hugleitt mikið hugtakið sjálfbær þróun meðan hann var að semja ræðuna sína. Það er að mínu mati miður því að mannkynið stendur nú frammi fyrir gríðarlegum verkefnum í umhverfislegu tilliti og hin hnattræna meðvitund þarf sannarlega á sameiginlegu átaki að halda og það líka frá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.

Verkefnin snúast ekki um alheimsvæðingu fjármagnsins. Nei, þau snúast fyrst og fremst um jöfnuð því misskipting gæðanna í veröldinni eykst stöðugt. Nú eru framleidd matvæli í heiminum sem nægja til að metta alla jarðarbúa. En þau ná aldrei til þeirra nauðstöddu. Og á meðan milljarður manna þjáist af hungri þjást jafnmargir af offitu. Í Afríku eiga milljónir manna yfir höfði sér dauðadóm vegna HIV-veirunnar og á sama tíma eru vestrænar vísindastofnanir að leggja ofurmikið fé í að finna aðferðir til að lengja líf manna á Vesturlöndum.

Á meðan efnahagur þriðjaheimsþjóða verður æ bágbornari þá blómstra verslun og viðskipti á Vesturlöndum með fjölþjóðleg stórfyrirtæki í broddi fylkingar sem í mörgum tilfellum notfæra sér neyð þriðjaheimsþjóðanna með því að sækja til þeirra ódýrt vinnuafl. Þetta er veruleiki heimsbyggðarinnar við upphaf 21. aldarinnar og þetta ástand er að hluta til á ábyrgð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Á meðan boðorðin tíu í þeirri ríkisstjórn fjalla einungis um neyslu þá er þetta ástand að hluta til á ábyrgð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.

En nota bene, boðorðin tíu um neysluna fjalla ekki um neyslu allra. Þau fjalla fyrst og fremst um neyslu þeirra sem betur mega sín því almennt launafólk, eldra fólk og öryrkjar verða að hafa það í huga, eins og forsrh. orðaði það, að kollvarpa ekki forsendum þeim sem stöðugleiki efnahagslífsins er byggður á. Boðskapurinn er neysluhyggja, blind trú á efnisleg gæði í stað þess að hlúa að félagslegu umhverfi og velferð mannssálarinnar. Hvað líður t.d. styttingu vinnuvikunnar?

Ríkisstjórnin hefur ekki einu sinni farið eftir sinni eigin stefnu í málefnum sjálfbærrar þróunar. Hún stundar ekki marktækar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og ekki hefur hún áhyggjur af takmörkuðum orkulindum okkar. Nei, hún leiðir ekki hugann að því að hver ný málmbræðsla takmarkar svigrúm okkar til að hlífa og hlúa að einni af okkar dýrmætustu auðlindum, þ.e. náttúrunni sjálfri.

Ekki er heldur talað af sannfæringu um mögulegan vetnisbúskap í framtíðinni. Ríkisstjórnin talar fyrir þungaiðnaði og stóriðju sem heyra til atvinnuvegum gærdagsins en skellir skollaeyrum við tillögum um sjálfbæra atvinnustefnu sem býður upp á störf í sátt við náttúruauðlindirnar.

Raunar má þakka ríkisstjórninni fyrir áform um Vatnajökulsþjóðgarð. Með þeim sýnir hún a.m.k. lit, þó að ekki eigi að ofgera hugmyndinni sem upphaflega lá að baki þáltill. Hjörleifs Guttormssonar sem fjallaði um fjóra þjóðgarða á miðhálendinu með jöklana sem kjarna og endaði í tillögunni um Vatnajökulsþjóðgarð sem samþykkt var í mars á síðasta ári.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar felur einungis í sér hálfstigið skref. Það á að friða jökulhettuna sem að öllum líkindum verður bráðnuð eftir um það bil 200 ár og ég fullyrði að þetta skref er einungis hálfstigið. Það er afar mikilvægt, og við leggjum alla áherslu á það í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, að landið sem er umhverfis jökulinn fylgi með. Þar eru fólgnar hinar eiginlegu náttúrugersemar sem þarfnast verndar. Það er að okkar mati mikilvægast að svæðið í kringum Snæfell vestur um Kverkfjöll og Vonarskarð fylgi strax með í stofnun þjóðgarðs.

Þá viljum við leggja á það áherslu að fram fari sjálfstætt mat á umhverfisáhrifum þjóðgarðs á Snæfells- og Kárahnjúkasvæðinu sem liggi fyrir um leið og mat á Kárahnjúkavirkjun liggur fyrir og með því tökum við undir áskoranir náttúruverndarsamtaka og skorum á ríkisstjórnina að láta fara fram slíkt mat. Allt annað væru svik við framtíðina. Og af því að félagasamtök á sviði náttúruverndar og umhverfismála eru nefnd þá væri ekki úr vegi að spyrja ríkisstjórnina að því hvernig hún hyggst standa við Árósayfirlýsinguna frá því 1998 um stuðning við frjáls félagasamtök. Hvernig hyggst hún t.d. veita náttúruverndarsamtökum hlutdeild í stefnumótun og ákvörðunum á sviði umhverfis- og náttúruverndar eins og henni er skylt samkvæmt yfirlýsingunni?

Nei, góðir Íslendingar. Þegar öllu er á botninn hvolft blasa við ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tækifæri til að gera sig gildandi í umhverfismálum og um leið að vekja hnattræna meðvitund í samfélaginu. Ef þau tækifæri eru ekki notuð núna gæti það orðið um seinan.