Kjör aldraðra og öryrkja

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 13:35:24 (28)

2000-10-04 13:35:24# 126. lþ. 3.94 fundur 16#B kjör aldraðra og öryrkja# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[13:35]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Rétt fyrir kosningar í fyrra sendi ríkisstjórnin frá sér fréttatilkynningu um traustar undirstöður efnahagslífsins þar sem lofað var að koma til móts við kröfur lífeyrisþega um bætt kjör sem yrðu sambærileg við það sem orðið hefðu hjá öðrum. Nú er liðið eitt og hálft ár frá því og hverjar hafa efndirnar orðið?

Misskiptingin hefur aukist í samfélaginu. Ríkissjóður skilar miklum tekjuafgangi og enn breikkar bilið milli tryggingagreiðslna og almennra launa. Staðreyndin er að lífeyrisgreiðslur almannatrygginga hafa dregist aftur úr þróun lágmarkslauna og launavísitölu. Aldraðir og öryrkjar eru hlunnfarnir. Það er staðreynd þó svo að hæstv. ráðherra hafi haldið öðru fram í stefnuræðu sinni. Upphæðirnar tala sannarlega sínu máli.

Grunnlífeyrir og tekjutrygging eru nú rúmar 48 þús. kr. en lágmarkslaunin 72 þús. kr. Skattleysismörkin hafa staðið í stað svo að lífeyrisþegi sem býr einn og nýtur eingöngu bóta lendir í að greiða af þeim skatt sem aldrei hefur viðgengist fyrr en í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Á sama tíma og laun á almennum vinnumarkaði hafa hækkað um þúsundir og tugi þúsunda króna eru öldruðum og öryrkjum skammtaðir hundraðkallar. Þeir fengu 606 kr. hækkun á lífeyri sinn um síðustu áramót, 157 kr. 1. apríl og 123 kr. núna 1. september. Lífeyrisþeginn hefði e.t.v. getað leyft sér eitthvert smáræði fyrir þessar smánarupphæðir ef leigan hefði ekki hækkað, fasteignagjöldin hækkað, matvörur hækkað, framfærslan almennt hækkað og ekki síst lyfin. Á sama tíma og lífeyrir og tekjutrygging hækkuðu um 23% hækkaði hlutur sjúks gamals fólks og öryrkja í lyfjakostnaði um 120%, enda berast nú fréttir af gömlu og sjúku fólki sem ekki getur leyst út lyfin sín.

Hjá lífeyrisþegum á lágmarksbótum ríkir örvænting. Það er langt frá því að endar nái saman og margir missa lífslöngunina við þessar aðstæður. Sú hungurlús sem ríkisstjórnin skammtaði þessu fólki úr hnefa hefur verið tekin öll til baka og meira en það með auknum álögum.

Það er samfélaginu dýrt að halda öldruðum og öryrkjum í fátækt eins og nú er. Það er rándýr fátækt. Þeir sem ekki geta tekið þátt í samfélaginu brotna niður, halda ekki heilsu og valda heilbrigðiskerfinu miklum útgjöldum. Börn öryrkja eru félagslega út undan og afskipt. Þessi fátæktarstefna er aðskilnaðarstefna. Fátækt er útilokun frá þátttöku. Hún er skerðing á mannréttindum og þjóðfélagið fer á mis við framlag þessa fólks. Ekki hefur verið vilji hjá ríkisstjórninni til að afnema þá siðlausu reglu sem tenging tekjutryggingar við tekjur maka er. Menn fá laun óháð tekjum maka síns, fá atvinnuleysisbætur óháð tekjum hans en ef menn verða óvinnufærir eða hafa lokið starfsævinni, þá eru launin tengd tekjum maka. Þessi niðurlægjandi regla hefur unnið gegn fjölskyldum og gegn hjónabandi lífeyrisþega. Það er ömurlegt að vera í þessari stöðu og vera kominn upp á aðra með allt.

Í tvígang hafa stjórnvöld þó dregið úr þessari tengingu sem er í áttina. En hvers vegna er hún ekki afnumin, herra forseti? Afnám þessarar óréttlátu reglu kostar ríkissjóð jafnmikið og ríkisstjórnin rétti jeppaforstjórunum með lækkuninni á jeppaskattinum í vor. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur greinilega meiri skilning á þörfum jeppaforstjóranna en lífeyrisþeganna. Ég trúi því ekki að ríkisstjórnin ætli ekkert að gera annað til að rétta hlut þessa fólks en að hækka tryggingagreiðslurnar um 4% um áramótin. Það dugar ekki til. Þessar upphæðir duga ekki til lágmarksframfærslu og 4% duga ekki einu sinni fyrir þeim aukasímkostnaði sem samgrh. hefur lagt blessun sína yfir að leggja á lífeyrisþega á næstunni.

Herra forseti. Kjör þessa hóps verður að bæta. Það er þjóðarskömm að fara svona með fatlaða og gamalt fólk í dag. Það gætir ótrúlegs sinnuleysis hjá ríkisstjórninni gagnvart þessu fólki en ég trúi því að dropinn holi steininn.