Kjör aldraðra og öryrkja

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 13:46:01 (30)

2000-10-04 13:46:01# 126. lþ. 3.94 fundur 16#B kjör aldraðra og öryrkja# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Málefni öryrkja og aldraðra eru og eiga að vera á borði allra ríkisstjórna. Þannig er það hér og þannig er það annars staðar einnig.

Meðal aldraðra eru a.m.k. tveir hópar. Það er annars vegar sá hópur sem hefur áunnið sér ríkan rétt til lífeyris eða býr við bestu kjör og svo er það hinn hópurinn sem hefur lífeyrisbætur Tryggingastofnunar ríkisins einar úr að spila eða rétt rúmlega það.

Ég hef sem heilbr.- og trmrh. ítrekað bent á að það sé samfélagsleg skylda okkar að beina kröftunum að seinni hópnum. Það er það veganesti sem nefnd sú fékk sem skilaði tillögum sínum í haust og fjallar um hvernig því markmiði verði náð að koma þeim til aðstoðar sem verst eru settir.

Það voru ekki kröfurnar sem ég sá á kröfuspjöldum fyrir framan húsið í fyrradag. Mér sýndist ég sjá þar kröfur um afnám allra tekjutenginga og verulega hækkun grunnlífeyris til allra.

Afnám allra tekjutenginga í almannatryggingakerfinu og veruleg hækkun grunnlífeyris til allra, t.d. um 20 þús. kr. á mánuði, kostar a.m.k. 12--15 milljarða kr. á ári. Mér finnst stundum að menn átti sig ekki á því að minnstur hluti þeirra milljarða mundi renna til hópsins sem við viljum helst rétta hjálparhönd.

Virðulegi forseti. Við verðum að hafa tekjutengingu en við verðum að koma til móts við þá sem minnst hafa. Ég bind vonir við að niðurstöður nefndarinnar, sem ég ræddi áður um, verði til þess að almenn sátt geti orðið um að aðstoða þá mest sem minnst hafa. Ég mun beita mér fyrir að slíkar tillögur verði lagðar fram.