Kjör aldraðra og öryrkja

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 13:57:42 (35)

2000-10-04 13:57:42# 126. lþ. 3.94 fundur 16#B kjör aldraðra og öryrkja# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[13:57]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við umræðu um stefnuræðu forsrh. í gærkvöldi voru kjör aldraðra og öryrkja sérstaklega dregin fram að gefnu tilefni. Það voru orð hæstv. forsrh. um að þess hefði verið gætt að kaupmáttaraukningin, sem orðið hefur undanfarin ár, næði einnig til þeirra sem semja ekki um kjör sín, svo sem aldraðra og öryrkja, og að öll þau skref sem ríkisstjórnin hafi stigið undirstriki þann vilja hennar að varðveita og efla kaupmátt þessara hópa á kjörtímabilinu.

Herra forseti. Ég dreg ekki í efa að það hafi verið gert eftir formúlu prósentureiknings. En þegar bótagrunnurinn er svo smánarlega lágur að hann er ekki í neinu samhengi við framfærsluþörf þá skila nokkuð háar prósentutölur til bótahækkunar ekki hárri krónutölu. Þeir sem eru að komast á elsta aldursskeiðið í dag gera aðrar kröfur en þeir sem voru aldraðir fyrir fáum áratugum. Sama má segja um öryrkja. Fólk gerir kröfu um að geta haldið áfram að stunda félagsstarf og áhugamál og vera fjárhagslega sjálfstætt og þannig á það að vera.

En það er ekki eingöngu framfærslueyrir sem skiptir aldraða og öryrkja miklu máli. Aðgengi að félagslegri þjónustu og heilbrigðisþjónustu ásamt lyfjakostnaði skiptir ekki síður miklu máli þegar metin eru lífsgæði aldraðra og öryrkja. Það er tákn um nýja tíma að eldri borgarar séu komnir í baráttuhóp þeirra sem berjast fyrir bættum kjörum. Ekki mun af veita.