Kjör aldraðra og öryrkja

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:08:39 (40)

2000-10-04 14:08:39# 126. lþ. 3.94 fundur 16#B kjör aldraðra og öryrkja# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:08]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. málshefjandi nefndi, bæði í seinni ræðu sinni rétt eins og í fyrri ræðu sinni, það lægsta sem menn þekkja að menn búi við og auðvitað er það svo að þeir sem hafa lægst úr að spila í bótum eingöngu búa við mjög þröngan kost, við vitum það. En síðan komu kröfurnar í framhaldi af þessu og þær tengdust ekki neitt þessum sem lægst hafði, þ.e. eingöngu lægstu tryggingabætur. Hverjar voru kröfurnar? Þær voru að afnema tekjutengingar við maka. Hv. þm. veit væntanlega að tekjurnar fara ekki að skerðast fullkomlega fyrr en við 270 þús. kr. hjá maka. Hún var alltaf að tala um 47 þús. kr. Þær fara ekki að skerðast fyrr en við 270 þús. kr. hjá maka. Hverjar voru svo kröfurnar á spjöldunum hérna fyrir utan? Afnema allar tekjutengingar, afnema eignarskatta, afnema tekjuskatta. Þetta voru kröfurnar sem voru mest áberandi á spjöldunum fyrir utan. Og það er auðvitað vegna þess að hagur ellilífeyrisþega er eins og annarra í þjóðfélaginu, þetta er ekki neinn einn hópur, afskaplega mismunandi. Mjög margir ellilífeyrisþegar hafa miklu betri aðstæður en þeir sem eru á besta aldri og eru að vinna að því að koma sér upp húsnæði til að mynda, mjög margir. Sem betur fer. Ef við lítum á þær tölur sem komu fram í þeirri skýrslu sem Jafnaðarmannaflokkurinn, eins og ég held að hann hafi heitið þá, bað um fyrir einu eða tveimur árum, kom þetta allt saman fram, að staða ellilífeyrisþega var mun betri hér á landi, sambærilega betri við það sem gerðist hjá OECD-löndunum og Norðurlöndunum. Þar kom einmitt fram að eignarskattsstofn hjóna til að mynda, þar sem bæði eru lífeyrisþegar, var 50% hærri að meðaltali en hjá vinnandi fólki á miðjum aldri. Þessir hópar eru því mjög mismunandi. Auðvitað er það rétt sem hæstv. heilbrrh. segir að við eigum ekki að tala svona úr og í. Við eigum að einbeita okkur að þeim sem minnst hafa en það gerði hv. málshefjandi svo sannarlega ekki.