Ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:21:01 (43)

2000-10-04 14:21:01# 126. lþ. 3.95 fundur 17#B ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:21]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál á dagskrá. Um leið vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Ég tel að miðað við þær vinnureglur sem við búum við bæði hvað varðar viðlagatryggingu og eins lögum um vátryggingasamninga hafi þetta gengið býsna vel miðað við það umhverfi sem matsmönnum og öðrum er búið í þessum efnum. Ég tel að sveitarfélögin, sem eiga þarna hlut að máli, hafi brugðist einstaklega vel við, myndað vinnuhóp og staðið mjög þétt að baki þeirra íbúa sem urðu fyrir tjóni.

Það er hins vegar alveg hárrétt að þarna hafa auðvitað komið upp mjög erfið vandamál, sérstaklega varðandi fyrningarreglu sem notuð er af Viðlagatryggingu. Þar er miðað við brunabótamatið en síðar koma fram fyrningar eftir ákveðnum stöðlum sem fáir af þeim hópum sem við höfum hitt, hvort sem um er að ræða tjónþola eða sveitarstjórnarmenn, virðast geta reiknað út eða skilið. Margt er enn óleyst. En á þessum þremur og hálfum mánuði hefur verið unnið mjög mikið starf. Ég tel að sveitarstjórnarmennirnir með vinnuhóp sinn og ráðgjafarmiðstöð hafi unnið nánast kraftaverk á þessu svæði. Við þurfum hins vegar að taka á þeim vandamálum sem við blasa. Hv. þingmenn, þau vandamál eru ekki bara ríkisstjórnarinnar, þau eru okkar vegna þess að vinnureglurnar eru settar af Alþingi, lagaramminn er settur af Alþingi. Það þarf að breyta honum. Við hjá Samfylkingunni, og reyndar nokkrir aðrir þingmenn, höfum samið frv. sem mun verða dreift annaðhvort í dag eða á morgun, fyrirspurnir og þáltill. sem taka að hluta til á þessu vandamáli. Síðan þurfum við að nýta þær upplýsingar sem hafa safnast til að gera enn betur.