Ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:23:20 (44)

2000-10-04 14:23:20# 126. lþ. 3.95 fundur 17#B ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það er alltaf mikill harmur þegar náttúruhamfarir eiga sér stað. Það var óboðinn gestur sem kvaddi dyra á sunnlenskum heimilum. Að vísu höfðu menn búist við heimsókn hans um langa hríð. Hann kemur með vissu millibili og gengur harkalega um og gerði það í þetta sinn þannig að innbú manna og húseignir skemmdust. Tjón sem er sársaukafullt og erfitt að bæta.

Sem betur fer varð ekki manntjón en auðvitað eru það eftirskjálftar sálarinnar sem þarf að huga að, að svæðið rísi til nýrrar sóknar og að þingið láti af hendi bætur samkvæmt lögum.

Ég hef dáðst að ríkinu, sveitarfélögunum, Rauða krossinum og sjálfboðaliðum í þessu starfi og þeirri miklu hjálp sem Sunnlendingum hefur verið veitt í þessum átökum. Ég trúi því að þessum málum muni ljúka fljótlega og að sátt verði. Ég tek undir með hæstv. forsrh. að sárast er að sjá mismun á brunatryggingum á milli sveitarfélaga og auðvitað þarf að fara yfir skipulag og lög Viðlagatryggingar á þinginu upp á framtíðina að gera.

Ég trúi því að þetta mikla svæði, Suðurland, rísi jafngott upp á ný. Gesturinn er farinn hjá garði, lífið blasir við. Við þar eystra trúum því á framtíðina sem fyrr.