Ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:25:15 (45)

2000-10-04 14:25:15# 126. lþ. 3.95 fundur 17#B ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:25]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Stærsti atburður sem snerti okkur sem þjóð varð í sumar þegar jarðskjálftarnir riðu yfir Suðurland. Því er eðlilegt að í upphafi þings sé þetta mál tekið fyrir og gerð grein fyrir stöðu þess í dag.

Náttúruhamfarir eins og jarðskjálftarnir á Suðurlandi í sumar varða ekki einungis það fólk sem þar býr heldur alla þjóðina og var mikið lán að ekki var beint tjón á fólki. Að sjálfsögðu snerta þessar hamfarir fyrst og fremst daglegt líf og framtíð þess fólks sem býr á þeim svæðum sem ógnirnar riðu yfir. Okkar hinna er að veita stuðning og styrk til að draga úr hinum slæmu afleiðingum og bæta það sem hægt er að bæta fljótt og örugglega þannig að daglegt líf og framtíðarsýn þessa fólks færist sem fyrst í sama horf og var áður en hamfarirnar dundu yfir. Þar má ekki verða langt milli orða og gjörða.

Hér hefur verið minnst á íbúðarhús og innbú fólks. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. forsrh. að hann muni beita sér fyrir því að endurskoða lög um Viðlagatryggingu þannig að meira öryggi skapist í tjónamati og rétti fólks til bóta við slíkar hamfarir sem við erum að fjalla um. Ég vil þó spyrja hvað líði úttekt á tjónamati og endurmati á útihúsum og iðnaðarhúsum og öðrum atvinnuhúsum í sveitum og hvernig verði tekið á bótum á því tjóni og hvernig verði farið með mat á rekstrartapi og missi atvinnutekna.

Herra forseti. Hugur allra Íslendinga var með íbúum Suðurlands á meðan jarðskjálftinn dundi yfir og hugur okkar er áfram með þeim. Við viljum fylgja því eftir að bætur, endurreisn mannvirkja, atvinnulífs og samfélags á svæðum þar sem náttúruhamfarirnar dundu yfir komist sem fyrst í eðlilegt og gott horf.