Ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:27:30 (46)

2000-10-04 14:27:30# 126. lþ. 3.95 fundur 17#B ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar# (umræður utan dagskrár), ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:27]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Málshefjanda ber að þakka fyrir að taka málið fyrir en nokkurs misskilnings gætti hjá hv. þm. í ræðu hans. Tjónafjöldi sem liggur fyrir á Suðurlandi er um 1.700. Búið er að meta og gera upp um 1.000 tjón, greiða um 800 milljónir kr. Reikna má með að tjónið í heild liggi öðru hvoru megin við tvo milljarða þegar upp er staðið.

Það er um margt sem Viðlagatrygging hefur staðið vel að verki en helst hefur staðan verið erfið gagnvart þeim sem lentu í altjóni. Þar var kerfið allseinvirkt en sér þó fyrir endann á því. Reiknað er með að öllu tjónamati verði lokið í lok nóvember samkvæmt upplýsingum Viðlagatryggingar, þar af eru um 500 tjón sem eru mörg smá en þó nokkur í sumarhúsum á svæðinu.

Virðingarvert er að Viðlagatrygging hefur lagt áherslu á að hafa gott samband við tjónþola en hugmynd um sérstakan tjónasjóð er kannski svolítið á misskilningi byggð vegna þess að Viðlagatrygging er sérstakur tjónasjóður, settur á laggirnar beinlínis til að sinna þessum þörfum. Hins vegar hefur Viðlagatrygging að mínu mati túlkað allt of þröngt og til óhags fyrir tjónþola lögin um viðlagatryggingu og þar koma tjónþolar ekki vel út. Ég tek undir gagnrýni hæstv. forsrh. í þessu efni þar sem viðlagagjöld eru miðuð við brunabótamat en Viðlagatrygging býr síðan til nýjar reglur, eigin reglu í mati, og þær eru í öllum tilvikum tjónþola í óhag. Þetta er hlutur sem þarf að knýja á um og ég fagna því sérstaklega að forsrh. skuli hafa fjallað um það hér.

Það liggur fyrir að það þarf að fjalla um úttekt á þessu máli, úttekt á húsum á Suðurlandi og skipulag Viðlagatryggingar í heild.