Ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:29:56 (47)

2000-10-04 14:29:56# 126. lþ. 3.95 fundur 17#B ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:29]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að við Íslendingar, sem búum flest á einhvers konar hættusvæðum vegna náttúruhamfara, drögum lærdóm af því sem yfir okkur dynur og unnið verði að lagabreytingum sem komi í veg fyrir að fólki sé mismunað sem verður fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara. Auk þess þarf að vinna að forvarnastarfi og þarf Viðlagatrygging Íslands að hafa skýrara hlutverki að gegna í því sambandi. Sem dæmi má nefna að mikilvægt er að farið sé yfir byggingar, gamlar og nýjar, og gerðar tillögur um breytingar sem mundu styrkja þær í jarðskjálftum ef þær eru á svæðum þar sem jarðskjálftavá vofir yfir.

Á undanförnum árum hafa dunið yfir okkar litla land náttúruhamfarir af ýmsu tagi og ber þar hæst snjóflóð sem hafa valdið miklu og óbætanlegu tjóni og nú síðast jarðskjálftarnir sem riðu yfir Suðurlandsundirlendið í sumar og ollu miklu tjóni á eignum en sem betur fer ekki manntjóni. Fyrir það getum við svo sannarlega verið þakklát forsjóninni. Nú þegar uppgjör fer fram við þá sem urðu fyrir mestu eignatjóni hefur komið í ljós að gildandi reglur gera ekki ráð fyrir að miðað sé við endurstofnverð heldur er brunabótamat lagt til grundvallar og á það reiknaðar út ákveðnar fyrningar á eignirnar og standa menn því afar misjafnlega að vígi þegar tjónið er bætt. Niðurstaðan er metin af þeim sem gerst til þekkja gjörsamlega óviðeigandi. Þessar fyrningar koma t.d. hvergi fram á þeim iðgjaldaseðlum sem fólk fékk í hendur og koma því fólki í opna skjöldu auk þess sem fasteignamat reyndist mjög mismunandi á sambærilegum eignum. Að fólki sem hefur lent í hörmungum sé mismunað eins og hér virðist blasa við á Suðurlandi er óviðunandi og ætti ríkisstjórnin að taka á sig rögg og gera ráðstafanir til að þessi ólög gangi ekki fram. Ég vil þakka það að í þessum umræðum hefur komið fram að hæstv. forsrh. sýnir málinu skilning.