Aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:45:55 (54)

2000-10-04 14:45:55# 126. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001# þál., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:45]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég tala fyrir þáltill. sem allur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs stendur að. Þáltill. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að haldið verði aukaþing sumarið 2001 þar sem fjallað verði um framtíðarþróun byggðar í landinu og í framhaldi af því mótuð markviss byggðastefna til næstu tveggja áratuga. Í tengslum við þingið verði haldin almenn byggðaráðstefna með aðild sveitarstjórna, helstu stofnana sveitarfélaga og hins opinbera sem annast byggðamál, félagasamtaka og einstaklinga.``

Þannig hljóðar þáltill. en í greinargerð er m.a. vikið að því að á undanförnum árum hafi byggðamál og þróun byggðar í landinu verið talin með mikilvægustu úrlausnarefnum í íslensku samfélagi, ekki síst vegna þess að síðustu ár hefur fólk þyrpst á höfuðborgarsvæðið með þeim afleiðingum að dregið hefur úr þrótti landsbyggðarinnar til þess að viðhalda atvinnu, reka viðunandi þjónustu fyrir íbúana og hlúa að blómlegu mannlífi. Þetta hefur orðið þrátt fyrir að á sama tíma hafi veruleg uppbygging átt sér stað víða úti á landi. Þorp og bæir hafa tekið stakkaskiptum, breytingar hafa orðið í landbúnaði og ýmis sveitarfélög eru á margan hátt fullkomlega fær um að taka við mun meiri og fjölbreyttari atvinnu en þar er nú stunduð, en skortir mannafla til.

Byggðaröskunin og fólksflóttinn á höfuðborgarsvæðið hefur eins og hér var nefnt oft verið til umræðu, enda hefur hann aukist ár frá ári og nemur nú nokkur ár í röð hartnær 2.000 manns á ári hverju.

Landsmenn vakna sífellt betur til meðvitundar um hinar neikvæðu afleiðingar byggðaröskunar. Æ fleiri gera sér ljóst hvaða möguleikar eru í því fólgnir fyrir þjóðlífið að nýta kosti dreifðra byggða landsins, svo sem fengsæl fiskimið, búsældarlegar sveitir og fjölbreytta, einstæða náttúru. Jafnframt vex skilningur á því að til þess að svo megi verða í nútíð og framtíð þarf að efla byggðirnar og auka hlutverk þeirra í sameiginlegum rekstri þjóðarbúsins. Þetta er liður í ævarandi sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Ekki leikur vafi á því að vaxandi meðvitund er um það í þjóðfélaginu hvert þjóðhagslegt óhagræði er af hinni miklu byggðaröskun. Útreikningar sýna að milljarðar á milljarða ofan fara í súginn á hverju ári vegna þessa en lauslegir útreikningar benda til þess að kostnaður sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem taka við fólki utan af landi sé á bilinu 3--5 millj. kr. fyrir hvern einstakling. Oft hefur þessu dæmi verið stillt þannig upp að það hljóti að vera mikill ávinningur fyrir höfuðborgarsvæðið að fá fólk hingað, að fólk flytjist búferlum af landsbyggðinni og hingað á suðvesturhornið, en á því eru tvær hliðar, ekki síst þegar um er að ræða eins mikla fólksflutninga og hér um ræðir. Það er því hagur allra landsmanna, ekki aðeins landsbyggðarinnar heldur ekki síður höfuðborgarinnar og þéttbýlissvæðisins á suðvesturhorninu, að stöðva þessa þróun.

Á undanförnum árum hefur mörgum aðgerðum stjórnvalda verið ætlað að efla og treysta byggð í landinu. Sumar þeirra hafa borið árangur, aðrar ekki. Helsta ástæða árangursleysis er ómarkviss viðbrögð við tímabundnum vanda einstakra byggða. Oft er gripið til ráðstafana án þess að hagsmunir heildarinnar séu hafðir að leiðarljósi af því að á það hefur skort að vandinn á landsvísu hafi verið skilgreindur. Þingmenn sem þingflokkar hafa lagt fram margar, metnaðarfullar tillögur sem ekki hafa verið til lykta leiddar. Sveitarstjórnir, félagasamtök og einstaklingar hafa leitað nýrra leiða en ekki heldur haft erindi sem erfiði nema að takmörkuðu leyti.

Mikilvægt er að þjóðarsátt náist um leiðir til þess að leysa þann knýjandi vanda sem byggðaþróunin hefur skapað og skapar enn, enda er um að ræða hagsmuni þjóðarinnar allrar. Af þeim sökum er fyllsta ástæða fyrir stjórnvöld að fara skipulega yfir allar tillögur sem komið hafa fram á undanförnum þingum ásamt hugmyndum einstaklinga og sveitarfélaga um farsæla þróun byggðar í landinu, taka formlega afstöðu til þessa efnis, leita sameiginlegra lausna og setja fram markvissa áætlun um framtíðarþróun byggðar á Íslandi.

Þess vegna er lagt til að boðað verði til aukaþings sumarið 2001 þar sem eingöngu verði fjallað um byggðamál, aðgerðir hins opinbera í þeim efnum og tillögur og hugmyndir sem fram hafa komið á síðustu áratugum til lausnar vanda í byggðaþróun. Í tengslum við þingið verði haldin almenn byggðaráðstefna þar sem fulltrúar sveitarstjórna, stofnana sveitarfélaga og hins opinbera sem annast byggðamál, fulltrúar félagasamtaka og einstaklingar sem láta sig málið varða geta borið saman bækur sínar og veitt þinginu stuðning og aðhald í störfum.

Það eru sennilega fáir málaflokkar sem á liðnum árum hafa fengið eins mikla umræðu hér á Alþingi og byggðamálin. Eins og hér var getið hafa komið fram tillögur frá einstökum þingmönnum, frá þingflokkum, frá ríkisstjórn, oft miklar að vöxtum, stundum í heilum bókum en eftir sem áður er árangurinn ekki sá sem væntingar hafa staðið til.

Við erum þeirrar skoðunar að í reynd sé fyrir því almennur vilji í þjóðfélaginu öllu og einnig hér á Alþingi að færa þessi mál til betri vegar. Um þetta er þverpólitísk sátt. Það er vilji allra Íslendinga að tryggja byggð í landinu öllu og jafna búsetuskilyrðin en á það skortir að á málinu sé tekið markvisst og heildstætt. Það er þess vegna sem við leggjum fram þessa tillögu, að Alþingi komi saman á sérstöku aukaþingi þar sem einvörðungu verði fjallað um þessi mál. Við tökum allar tillögur sem fram hafa komið, tökum þær til markvissrar umræðu og skoðunar og í tengslum við þá umræðu sem hér færi fram yrði efnt til sérstakrar byggðaráðstefnu fulltrúa sveitarfélaganna, þeirra stofnana sem hafa með þau mál að gera hjá einstökum sveitarfélögum og félagasamtökum, auk þess sem við mundum bjóða til slíkrar umræðu einstaklingum sem hafa eitthvað og mikið til málanna að leggja og málið brennur á. Með öðrum orðum að við sköpuðum víðtæka umræðu í þjóðfélaginu um þetta knýjandi mál.