Aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:54:29 (55)

2000-10-04 14:54:29# 126. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001# þál., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:54]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það er hægt að hafa mörg orð um byggðamál almennt og það er að sjálfsögðu hægt að hafa mörg orð um þá tillögu sem hér er lögð fram en ég ætla ekki að gera það. Ég tek að sjálfsögðu undir það með hv. 1. flm. sem hér flutti framsöguræðu að það þarf að færa þessi mál til betri vegar. Ég tel hins vegar ekki að það verði gert með því að halda sérstakt sumarþing um þennan málaflokk einvörðungu. Ég leyfi mér að segja, hæstv. forseti, að eitthvað yrði sagt um mig sem byggðamálaráðherra ef ég flytti svona tillögu, að nánast ætti að fresta umræðunni fram á sumar, þá skyldum við ræða þetta. Málið er bara ekki þannig vaxið. Ég segi, hæstv. forseti, að mér finnst þessi tillaga vera vanhugsuð.

Alþingi samþykkti mjög metnaðarfulla tillögu um byggðamál sem gildir fyrir tímabilið 1999--2001 þannig að við höfum svo sannarlega ályktun til að vinna eftir og það er hlutverk mitt sem byggðamálaráðherra, ef má orða það þannig, að fylgja þeirri tillögu eftir. Ég mun á þessu þingi leggja fram skýrslu um framkvæmd byggðaáætlunar og vonast ég til að um þá skýrslu skapist umræður hér á þingi sem verði mér og ríkisstjórn til hjálpar í því að vinna áfram í þessum málaflokki. Ég vænti þess að hv. þm. vinstri grænna, ég man ekki hvað hann heitir, við köllum viðkomandi stjórnmálaflokk yfirleitt vinstri græna, taki þátt í þeirri umræðu en fresti henni ekki fram á sumar. Byggðamálin eru nefnilega alls ekki einangraður málaflokkur. Þau spanna breitt og vítt svið og þau tengjast nánast öllu því sem er til umræðu á hv. Alþingi. Byggðamál eru samgöngumál. Byggðamál eru að sjálfsögðu atvinnumál og kannski eru þau fyrst og fremst atvinnumál vegna þess að okkur skortir fjölbreyttara atvinnulíf á landsbyggðinni. Eitt af því sem unnið er að í iðnrn., og ég tel vera stærsta byggðamálið, er uppbygging álvers á Austurlandi og tilheyrandi virkjunarframkvæmdir. Ég veit ekki betur en hv. þingmenn sem flytja þessa tillögu séu andvígir þeim framkvæmdum. Það er þá eitthvað nýtt ef það er ekki. Fjarskiptamál eru byggðamál. Félagslegar aðstæður á landsbyggðnni eru byggðamál og svona mætti lengi, lengi telja.

Þá var lögunum um Byggðastofnun breytt á síðasta Alþingi og tekin hefur verið ákvörðun um að flytja Byggðastofnun út á land, til Sauðárkróks. Ég hef ekki tekið eftir því að hv. þm. sem flytja þessa tillögu styðji það mál heldur eru þeir því andvígir og meira að segja formaður þessa stjórnmálaflokks tjáði sig nýlega opinberlega gegn flutningi Byggðastofnunar út á land. Þar að auki er með þeim lögum ákveðin breyting gerð á hvað varðar starfsemina þannig að það er haldinn aðalfundur Byggðastofnunar. Haldinn var slíkur fundur í sumar á Akureyri og þótti takast mjög vel. Á þeim fundum gefst tækifæri til að ræða byggðamál á svipaðan hátt og hv. þm. eru að leggja til í þessari tillögu, þannig að það er ekki hægt að neita því að það hvarflar að mér hvort hv. þm. séu hvorki meðvitaðir um ályktun Alþingis né breytingarnar á Byggðastofnun miðað við þennan texta.

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í upphafi ætla ég ekki að hafa mörg orð um þessa tillögu en hún er að mínu mati ákaflega vanhugsuð. Ég er henni því ekki fylgjandi og tel að málefni byggðanna verði ekki leyst fyrst og fremst með ræðum úr þessum stóli heldur með aðgerðum. Ég þigg öll góð ráð í sjálfu sér en ég vil ekki fresta því fram á sumar að ræða þessi mál.