Aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 15:00:20 (56)

2000-10-04 15:00:20# 126. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001# þál., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[15:00]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Bara ein örstutt leiðrétting. Það er enginn misskilningur hjá okkur, við erum ekki að leggja til að öllu því sem snertir byggðamál verði frestað fram á sumar. Öllum stundum erum við að taka á málum sem snerta byggðirnar. Það skiptir máli hvert fiskveiðistjórnarkerfið er fyrir byggðirnar. Samgöngur skipta máli. Skattkerfið skiptir máli eins og hæstv. ráðherra benti á. Félagskerfið og félagsþjónusta skiptir máli. Einkavæðingaráform skipta máli og hafa áhrif á byggðirnar. Allt þetta er hárrétt. Við erum að sjálfsögðu ekki að leggja til að fresta umræðu um þessi efni. Ég get upplýst hæstv. ráðherra um það að okkur nægir ekki aðalfundur Byggðastofnunar til að taka á þessum málum. Hugmyndir okkar og væntingar ganga heldur lengra en þetta.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að efna til orðaskaks um þetta mál. Tillaga okkar gengur einmitt út á að skapa um það breiða pólitíska samstöðu að taka á byggðamálunum á markvissari hátt en gert hefur verið.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra nefnir að Alþingi og ríkisstjórn vinna samkvæmt byggðaáætlun sem var samþykkt á sínum tíma en hún hefur engu að síður ekki gengið betur upp en það að fólksflóttinn af landsbyggðinni á suðvesturhornið hefur ekki minnkað. Um tvö þús. manns á ári hverju hafa flutt af landsbyggðinni á suðvesturhornið. Þrátt fyrir öll góð áform og tillögur og ályktanir sem hafa verið samþykkt hefur þróunin verið þessi. Við erum að bjóða upp á þverpólitíska umræðu þar sem við freistum þess að taka á þessum málum á markvissari hátt en gert hefur verið.