Aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 15:30:52 (62)

2000-10-04 15:30:52# 126. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru ákaflega mikilvægar upplýsingar sem hæstv. ráðherra flytur hér. Það liggur alveg fyrir eftir það sem hún hefur sagt að það er ekkert að gerast varðandi framkvæmd þeirra loforða sem hæstv. forsrh. gaf úr þessum stóli um flutning starfa til Ólafsfjarðar. Það er ekkert að gerast.

Hv. þm. og þingforseti Halldór Blöndal gaf líka ákveðin loforð á þeim fundi. Hann sagði að búið væri að ganga frá þessum flutningi og það lægju fyrir pólitískar yfirlýsingar stjórnvalda. Nú sjáum við hvað er að marka þessar pólitísku yfirlýsingar. Störfin, sem hæstv. ráðherra nefndi í ræðu hérna og skilgreindi með næsta ítarlegum hætti að gætu flust til Ólafsfjarðar, eru ekki að flytjast til Ólafsfjarðar. Það hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir Ólafsfirðinga, en það er greinilega allt í plati á Ólafsfirði.

Herra forseti. Þegar ég sagði að hæstv. iðnrh. væri vork\-unn þá er það vegna þeirrar meðferðar sem hún sætir af hálfu Sjálfstfl. Muna menn ræðu hæstv. forsrh. hér síðla í febrúar þegar hann lýsti hvaða störf ætti að flytja til Ólafsfjarðar og sagði síðan að málið væri á borði byggðasviðs iðnrn.

Hvað var hæstv. forsrh. að gera, herra forseti? Hann var að segja: Jú, ég vil flytja þessi störf og ég tel að það sé hægt og búið er að vinna það vel af nefnd fjögurra ráðuneytisstjóra, en það er hæstv. iðnrh. sem á að framkvæma það. Og síðan er auðvitað ráðherranum ekkert hjálpað til þess að framkvæma þetta. Það kemur fram að þetta er ekki á döfinni og Framsfl. situr uppi með skömmina yfir að geta ekki uppfyllt loforð Sjálfstfl. Það er þess vegna sem ég segi, herra forseti, ég vorkenni hæstv. iðnrh. vináttu af þessu tagi.