Aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 15:33:01 (63)

2000-10-04 15:33:01# 126. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hvers vegna sérstakt sumarþing um byggðamál á næsta sumri? Í okkar huga sem flytjum þessa þáltill. er svarið mjög einfalt: Það er knýjandi þörf á að taka hressilega og með alvöru á þeirri þróun sem hefur verið undanfarin ár og lítur út fyrir að verði áfram varðandi byggðaröskun á landsbyggðinni. Það er málið.

Það er hægt að segja það hér og túlka það þannig af öðrum hv. þingmönnum að þetta sé til þess að skella blautri tusku framan í núverandi ríkisstjórn vegna framkvæmda á þessu sviði. Í okkar huga er þingsályktunartillagan fyrst og fremst vegna alvarleika málsins, til að ná þjóðarvakningu, því það þarf líka. Það þarf að gera alla Íslendinga, ekki bara landsbyggðina og einhverja hér á höfuðborgarsvæðinu heldur alla þjóðina meðvitaða um hvað þessi þróun hefur og mun kosta þjóðina ef þessi byggðaröskun heldur áfram. Það er ástæðan fyrir tillögunni.

Í okkar huga mundi það skipta mjög miklu máli að ná um það breiðri samstöðu að hafa sérstakt þing. Það segir ekkert um það hvað það þurfi að standa lengi, í hálfan mánuð, lengur eða skemur, en að það sé sérstakt þing þar sem við náum saman þessum straumum héðan úr þingi með sveitarstjórnum, með fólkinu í landinu til að ná samstöðu um aðgerðir frá ríkisvaldinu og til einstaklinganna.

Þetta er mjög þýðingarmikið og við erum ekki með þessu að leggja það til að allri umræðu um byggðamál verði hætt hér í vetur og frestað til sumarsins. Það væri hrapallegt ef þessi þáltill. yrði tekin þannig og hún nýtt til að fresta umræðu hér á þingi.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt mjög ríka áherslu á byggðamál og okkur er umhugað um að hún verði öflug á þinginu í vetur. En það á ekki að hafa áhrif á að við reynum ekki að ná þjóðarsátt og þjóðarvakningu um málið á sérstöku þingi.

Við erum líka vel upplýst um að það er til byggðaáætlun. Hæstv. iðnrh. greindi frá því áðan að hún muni leggja fram nú í vetur nýja áætlun og það er gott ef verið er að vinna að þessari byggðaáætlun. En staðreyndin er sú að þrátt fyrir að við höfum starfandi Byggðastofnun og að hún sinni rannsóknum ásamt fjölmörgum öðrum verkefnum, að starfandi séu atvinnuþróunarfélög og að sveitarfélögin vítt og breitt um landið séu að reyna af fremsta megni að sinna margvíslegum verkefnum til þess að styrkja fyrirtæki eða koma á nýjum atvinnutækifærum og að það séu einstaklingar og fyrirtæki sem oft á tíðum sýna mikið frumkvæði og áræði til að stofna ný fyrirtæki og koma af stað nýjum atvinnutækifærum, þá hefur okkur ekki tekist að snúa þessari óheillavænlegu byggðaþróun við. Það er einfaldlega ástæðan fyrir því að við leggjum þetta fram, að ná víðtækri sátt um áherslubreytingar, um breytt vinnubrögð eða hvað eitt það sem getur snúið þessari þróun við.

Við þurfum ekki fleiri skýrslur eða greinargerðir, en við þurfum kannski að halda utan um og kortleggja ástandið betur og það væri hægt að gera á slíku þingi. Það er hægt að nota veturinn í vetur til að safna í sarpinn og undirbúa slíka umræðu, fyrir utan greinargerðir og þær hugmyndir sem hafa þegar verið mótaðar, vinna úr þessu auk þess að safna í þennan sama sjóð upplýsingum frá þeim löndum sem hafa gengið í gegnum sömu hrakninga og við en náð að snúa þróuninni við og skoða hvaða leiðir þessar þjóðir hafa farið, læra af þeim og nýta okkur þær upplýsingar og vita hvort við þurfum ekki að breyta einhverju í vinnubrögðum okkar.

Eins og hér kom fram erum við ekki að ræða um einstök atriði sem snúa að byggðamálum en við höfum oft á tíðum verið seinheppin og kannski brugðist líka of seint við vanda. Margt af því sem við höfum gert fram að þessu --- ég er að vona að það sé að breytast --- hefur verið að bjarga því sem bjargað varð þegar eitthvað hefur farið úrskeiðis en ekki að sama skapi horft fram á veginn.

Ég hef þá trú að ný hugsun sé að koma inn í þá vinnu sem þarf til að snúa að uppbyggingu byggðar. Það er þá að virkja þá hugsun og fá fleiri í lið með okkur.

Af því að það var nefnt hér áðan þá er alveg ljóst að þróun byggðastefnu og það að snúa íbúaþróuninni við verður ekki gert með því að fara á aðalfund Byggðastofnunar. Breytingin felst heldur ekki í því að flytja Byggðastofnun út á land. Það er ýmislegt annað sem þarf að gera.