Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 11:01:42 (73)

2000-10-05 11:01:42# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[11:01]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. fjmrh. um að meginverkefni í efnahagsmálum þjóðarinnar er að treysta og varðveita stöðugleikann. Það blasir við að þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar fer viðskiptahallinn vaxandi og hann er orðinn gríðarlega hár eða um það bil 8% af landsframleiðslu. Samkvæmt þjóðhagsáætlun verður hann um 57 milljarðar á á næsta ári og svipað hlutfall af landsframleiðslu. Það þarf auðvitað einhvern veginn að fjármagna þennan mikla halla. Það blasir við að erfitt verður að gera það og samhliða að halda genginu traustu sem er auðvitað forsenda fyrir því að varnir okkar gegn verðhækkunum bresti ekki. Í fjárlagafrv. er yfirlit yfir lántökur og afborganir ríkisins og þar kemur fram að á næsta ári hyggst ríkið verja 23,3 milljörðum kr. í að greiða niður lán erlendis. Ekki er hægt að skilja framsetningu frv. öðruvísi en svo að þessum fjármunum eigi að verja til þess að greiða niður erlend lán.

Ég vil ekki nota stór orð, herra forseti. En ég spyr hæstv. fjmrh.: Er þetta ekki ákaflega óráðlegt með tilliti til þess hve gengi krónunar er ótryggt miðað við þær aðstæður sem hinn mikli viðskiptahalli hefur skapað? Og eru það ekki mistök af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að gefa út yfirlýsingu af þessu tagi því að mér virðist sem hún sé beinlínis til þess fallin að grafa undan trúverðugleika gengisstefnunnar, svo maður noti hófleg orð, setja íslensku krónuna í nokkurn skugga? Mig langar því að spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann sé sammála þeim dómi markaðarins sem kom fram í gær um að þessi yfirlýsing ógni gengi og þar með stöðugleika íslensku krónunnar.