Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 12:24:33 (92)

2000-10-05 12:24:33# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[12:24]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég var ungur maður söng ég lengi í kór. Sá kór var yfirleitt nefndur gengisfellingarkórinn. Á árunum 1988--89 lögðum við kórinn niður, hættum að syngja í honum og tókum upp nýja stefnu. Þá fórum við að berjast fyrir því að minnka heldur kostnað innan lands til þess að gera atvinnulífinu kleift að lifa og standast samkeppnina.

Nú sé ég ekki betur en að búið sé að endurreisa þennan kór og ég heyri ekki betur en að aðalforsöngvarinn heiti hv. þm. Jón Bjarnason. Hvernig í ósköpunum ætlar hann að ráða við viðskiptahallann öðruvísi en að fella gengið úr því hann vill í sömu ræðunni efla, auka, stækka og hækka hvern einasta málaflokk sem við erum að fjalla hérna um? Hvernig í veröldinni eigum við að gera þetta öðruvísi þá? Hann hefur tekið við því hlutverki sem við lögðum af fyrir tólf árum og það eru þá tíðindi þegar stjórnarandstaða Íslands er með þessa efnahagspólitík.