Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 12:28:23 (95)

2000-10-05 12:28:23# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[12:28]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson erum sammála um að styrkja beri umgjörð atvinnulífsins. Ég gat þess einmitt í ræðu minni áðan. Styrkja umgjörð einstaklinganna, styrkja umgjörð hinna minni fyrirtækja vítt og breitt um landið en ekki að einblína á stóriðju og samruna sem eigi að vera allsherjarlausn og patent.

Það er nefnilega svo, herra forseti, að það er stutt í það að menn hlaupi eftir eigin bergmáli. Ég vil benda hv. þm. Einar Oddi Kristjánssyni á að gæta sín þar. Í fjárlagafrv. er sóun á fé sem við mundum vilja verja með öðrum hætti. Má ég benda á fjárausturinn til þess að koma á einhverju sem heitir Schengen-samkomulag og Schengen-aðgerðir þar sem á að lögregluvakta fólk út og inn úr landinu eftir uppruna, þjóðerni o.s.frv. Algjörlega andstætt íslenskri þjóðarsýn. Þarna er sullað í peningum sem hefði betur verið varið til þess að byggja og styrkja íslenskt atvinnulíf. (EOK: Við vorum sammála á móti því.) Við erum sammála á móti því.