Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 12:50:41 (97)

2000-10-05 12:50:41# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[12:50]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Við fjárlagaumræðuna fyrir ári benti allt til þess og var líka rétt og allir þeir sem tóku til máls úr fjárln. kváðu upp úr með að ekki gengi til lengdar að menn virtu ekki fjárlögin. Það yrði að taka á því strangar en gert væri. Við gætum ekki ár eftir ár komið með slíkar yfirkeyrslur eins og var gert við fjáraukalögin í fyrra.

Allt hefur þetta gengið eftir vegna þess að þau gleðilegu tíðindi verða birt í þessum mánuði þegar fjáraukalögin verða lögð fram að öll starfsemi ríkisins er miklu nær því í dag en áður að virða fjárlögin og er þar gríðarlega mikill munur á. Hins vegar er það svo að útgjöld til heilbrigðismála hafa haldið áfram að vaxa á þessu ári, næsta ári og árinu þar á undan líka. Útgjöldin á næsta ári verða áætluð í kringum 8,5% af vergri landsframleiðslu sem er með því allra hæsta sem þekkist innan OECD. Það er vel og við skulum fagna því. Tilraunir okkar til þess að halda niðri og lækka útgjöld til lyfjamála að fyrirmynd norrænu þjóðanna hafa því miður ekki tekist. Það sem átti að verða niðurskurður í lyfjum árið 2000 og árið 1999 varð aukning. Það hefur ekki tekist.

Allur samanburður varðandi fjárfestingar okkar erlendis er út í hött. Hingað til hafa allar fjárfestingar okkar varðandi húsnæði á vegum hins opinbera, þ.e. utanríkisþjónustuna, skilað verulegum arði þannig að það hefur tekist. Hitt getur svo legið milli mála. Ég skal ekkert segja um það hvernig fer um hið rándýra húsnæði í Tókíó, hvort það á eftir að verða varanleg peningageymsla eða ekki. Það vitum við ekkert.