Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 13:54:50 (103)

2000-10-05 13:54:50# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég gef náttúrlega engum neina tryggingu. Þetta er ekki eins og í ævintýrunum þegar menn komu og sögðu: Legg ég á og mæli um, og þar með varð það.

Staða íslensks atvinnulífs er mikið áhyggjuefni vegna þeirrar eftirspurnar sem er í landinu. Við höfum ekkert getað ráðið við það. Að vísu er mjög mikið af því vegna fjárfestinga, til allrar hamingju eru Íslendingar að dreifa áhættu sinni, þeir eru að fjárfesta erlendis sem er mjög gott upp á framtíðina, ég tala nú ekki um fyrir hönd lífeyrissjóðanna sem eiga að standa undir kjörum ellilífeyrisþeganna. Við getum ekki gefið neitt garantí fyrir þessum hlutum en við getum reynt það, við getum reynt að fara varlega, við getum reynt að hemja okkur. Og þetta fjárlagafrv. er ein tillaga til þess. Það er til þess sem þetta fjárlagafrv. er svona samið, til þess að reyna að koma í veg fyrir slíka þróun og sporna gegn henni. Það er vegna þess sem við erum með 30 þús. milljóna afgang. Það er til að reyna að ná þessum árangri. Hvort okkur tekst það eða ekki getum við ekki garanterað, það er ekkert víst. En það er fúslega sagt, það er mikill og ákveðinn vilji til þess vegna þess að menn gera sér alveg grein fyrir því þrátt fyrir velgengni okkar á undanförnum árum vitum við alveg um fallvaltleika þessa heims. Það er enginn svo kjánalegur að ætla að halda fyrir fram að allt sé rósum stráð. Við vitum um hætturnar, þess vegna erum við að reyna að fara varlega, þess vegna er verið að reyna að hafa þetta fjárlagafrv. þann veg sem það er.