Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 13:59:12 (106)

2000-10-05 13:59:12# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[13:59]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Nú lauk máli sínu hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, talsmaður Sjálfstfl., sem er á móti fæðingarorlofslögunum sem við samþykktum í fyrra, sem er á móti Schengen-samkomulaginu og afleiðingum þess. Hann er sem sagt gegn eigin ríkisstjórn sem hann er þó að hamast við að verja og hrósa í bak og fyrir. Undarlegur málflutningur það.

En af því, herra forseti, að það er svo undarleg niðurstaða hjá þingflokksformönnum og stjórn þingsins um að það væru aðeins talsmenn sem mættu fara í andsvör þá má ég til með að bera fram spurningar úr því að ekki var hægt að fara spontant í ræður þingmanna sem hér töluðu sem talsmenn flokkanna. Því vil ég beina þessari spurningu til hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar um hvort hann telji að sá fjárlagaafgangur sem gert er ráð fyrir upp á 30.300 millj. sé raunhæfur.

[14:00]

Og í öðru lagi: Hverjar telur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson að verði helstu breytingar fjárlagafrv. þess sem nú liggur fyrir?

Það verður fróðlegt að fá svör við þessu. Ég hef takmarkaðar efasemdir um raunsæi varaformanns fjárln. Því spyr ég hann þessara spurninga.

Ég vil bara minna á breytingar upp á hundruð milljóna kr. í síðasta fjárlagafrv. og ég vil minna á að það vantar verulega á að grundvöllur rauntalna liggi fyrir. Það liggja aðeins fyrir megindrættir. Þess vegna spyr ég þessara spurninga.

Til þess að styðja það sem ég var nú að segja vil ég bara minna á að það vantar að samþykkja uppgjörsfjáraukalög fyrir árið 1998. Það hefur ekki verið gert. Uppgjörsfjáraukalög fyrir árið 1999 hafa ekki verið lögð fram. Frv. til fjáraukalaga vegna ársins 2000 hefur ekki verið lagt fram. Þetta segir manni að það vantar verulega inn í þann grundvöll sem á að vera fyrir fjárlagafrv. eins og það er núna í höndunum á okkur.

Og aðeins út frá því sem stendur í þessu fjárlagafrv. þá má velta því fyrir sér hvort sparnaður heimilanna sé að aukast. Ég efast um að svo sé. Samkvæmt upplýsingum hafa heildarskuldir einstaklinga sem hlutfall af tekjum aukist úr 108,6% í 109,5%, eða um u.þ.b. 1%, þannig að það er ýmislegt sem maður þarf að velta fyrir sér og það er mjög margt, hv. varaformaður fjárln., sem á eftir að gerast í umfjöllun í fjárln. og það er margt sem á eftir að koma fram á þeim vikum sem líða fram að næstu umræðu.

Það er ástæða til að spyrja hæstv. fjmrh. um það vegna ræðu hans, sem ekki var hægt að fara í andsvör við út af því sem ég greindi frá áðan, hvort hæstv. fjmrh. telji að við eigum von á því með hinu nýja hagkerfi að það skili öldruðum, öryrkjum og þeim sem teljast lakar settir betri stöðu í þjóðfélaginu en hæstv. ríkisstjórn hefur skipað þeim í nú. Eða getum við átt von á því að enn á næsta ári og kannski aftur á þarnæsta ári heyrum við hróp þegar við göngum til þingsetningar ,,heiðra skaltu föður þinn og móður``. Það þótti mér ömurlegt að heyra. Mér þótti ömurlegt að heyra að aldraðir höfðu komist að þeirri niðurstöðu að þetta var sterkasta hróp þeirra. Sterkasta hvatning til Alþingis Íslendinga um að laga þeirra kjör.

Ég spyr: Ætlar hæstv. fjmrh. að beita sér fyrir því að breyta skattkerfinu þannig að tekjutengingarákvæði rífi ekki til baka hverja krónu sem fyrrnefndir hópar kunna að fá til hækkunar, þ.e. krónu fyrir krónu?

Herra forseti. Mig langar að rökstyðja þetta dæmi út frá einstaklingi sem fékk í leiðréttingu á lífeyri 214 þús. kr. Það var gömul kona sem fékk þessa leiðréttingu vegna áranna frá 1997 fram til 1999. Og hvað gerðist þá með þessum 214 þús. kr. sem þessi gamla kona fékk í leiðréttingu? Hún missti tekjutryggingu upp á hvað, 96 þús. kr. Hún varð að greiða í staðgreiðslu 54 þús. kr. Hún missti heimilisuppbót upp á 74 þús. kr. Hún stóð með 10 þús. kr. í mínus eftir að hafa fengið lífeyrisgreiðslu upp á 214 þús. kr. Svona er skattkerfið okkar og það vantar frumvörp. Það þarf að leggja fram frumvörp með fjárlagafrv. til að laga svona óréttlæti.

Mér er nákvæmlega sama hvort það er verkalýðshreyfingin, Vinnuveitendasambandið eða hver það er sem hefur staðið að þessum gjörðum, þær eru ranglátar og við eigum að vera fólk til að laga þetta, hvort sem við sitjum í meiri eða minni hluta, í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þetta dæmi er sannleikur og ég get dregið það fram og látið hæstv. fjmrh. hafa með nafni og kennitölu og öllu saman ef þess er óskað.

Herra forseti. Í umræðunni um fjárlög má frekar búast við fyrirspurnum, gagnrýni og athugasemdum heldur en umræðum um þann gífurlega afgang sem menn ætla sér að vera með í lok fjárlagaársins. En eins og ég sagði áðan: Uppgjörsfjáraukalög vegna 1998 hafa ekki verið samþykkt og uppgjörsfjáraukalög vegna 1999 liggja ekki fyrir og heldur ekki fjáraukalög vegna ársins 2000.

Ég vil einnig minna á, herra forseti, að ríkisreikningur er undirritaður með fyrirvara af hálfu ríkisendurskoðanda, þannig að það má af því sem ég nú segi vera ljóst að það vantar á að grunnurinn fyrir framlögðu frv. sé trúverðugur. Af hverju undirritar ríkisendurskoðandi ekki ríkisreikning? Af hverju? Vegna þess að hann telur eitthvað rangt, hann telur eitthvað vera þar sem á öðruvísi að vera.

Ég veit að tekju- og gjaldahlið þessa frv. sem við erum nú að byrja að ræða mun breytast í meðförum fjárln. og eftir atvikum í höndum Alþingis. Það hefur alltaf gerst þessi ár sem ég hef átt sæti í fjárln. Það má minna á að nánast öll sérframlög sem fjárln. setti inn í frv. á síðasta ári af ýmsum toga, vegna félagasamtaka, vegna ýmissa tekjustofna sem þurfti að rétta af fyrir stofnanir, það hefur allt verið tekið út aftur. Það er kannski eðlilegt að hver einasta stofnun sem fjárln. hefur veitt fyrirgreiðslu sé endurskoðuð á hverju ári, það getur vel verið. En svo mikið er víst að ég veit að stofnanir eins og Krýsuvíkursamtökin fengu leiðréttingu vegna þess að það vantaði inn í grunninn þeirra og það er tekið út. Ég get rakið fjölmörg svona dæmi. Í gegnum allt fjárlagafrv. er sérstaklega getið um liði sem eru teknir svona út.

En ég vil segja það að sem betur fer hefur mjög oft náðst samkomulag um lagfæringar fyrir lokaafgreiðslu frv. og ég vonast til þess að við eigum gott samstarf í fjárln. á hvorn veginn sem við tölum um meiri eða minni hluta, að við eigum gott samstarf um að laga það sem upp á vantar. Og ég treysti því að hæstv. fjmrh. muni ekki setja fótinn fyrir þær leiðréttingar sem eru nauðsynlegar gagnvart svo fjölmörgum félagasamtökum hverju nafni sem þau nefnast.

Mér segir svo hugur um að margar breytingar verði gerðar á fjárlagafrv., ég er ekki að spá illa fyrir ríkissjóði heldur reikna ég með að tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga verði að endurskoða og menn verða að reikna með verulegum breytingum á þeirri tekjuskiptingu.