Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 14:11:34 (108)

2000-10-05 14:11:34# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[14:11]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er ég klár á hvernig framgangur mála á að vera. Ég var bara að benda hæstv. fjmrh. á að grundvöllurinn fyrir framsettu fjárlagafrv. er kannski ekki nægjanlega traustur fyrr en við erum búin að sjá þessi mál afgreidd.

Ég spurði hér spurninga varðandi hið nýja hagkerfi og minnti á ákveðin atriði sem legið hafa mjög þungt á mér frá því á þingsetningardegi og það er ekkert víst að hæstv. fjmrh. vilji svara þessu, en ég spurði um hið nýja hagkerfi og áhrif þess á þá hópa sem ég nefndi í ræðu minni. Síðan spurði ég beint um hugsanlegar breytingar á skattkerfi sem varða tekjutengingar, tók af því dæmi, nákvæmt dæmi um einstakling sem tapaði 10 þús. kr. á því að fá 214 þús. kr. lífeyrisgreiðslu vegna tekjutenginganna. Þetta er sannleikur og ég get komið með hann og lagt hann fyrir hæstv. fjmrh. þegar hann vill, bæði með nafni og kennitölu. Þessu þurfum við að kippa í lag og ég treysti því að hæstv. fjmrh. sé mér sammála um að svona lagað eigi ekki að viðgangast.