Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 14:12:58 (109)

2000-10-05 14:12:58# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[14:12]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég dreg ekki í efa það dæmi sem hv. þm. hefur nefnt til sögunnar og ég hygg að það sé hægt að nefna mjög mörg dæmi þar sem niðurstaðan hjá fólki verður alveg hörmuleg vegna tengingar sem er á milli bóta innbyrðis, lífeyrisgreiðslna og skatta. Það er nú einmitt þess vegna sem ríkisstjórnin hefur sett í gang sérstakan vinnuhóp til þess að kortleggja það mál, þ.e. samspilið á milli bótagreiðslna almannatrygginganna, lífeyrisgreiðslna úr lífeyrissjóðum og skattkerfisins til þess að gera raunhæfar tillögur um að koma okkur út úr þeim vítahring sem fólk lendir í við svona aðstæður eins og hv. þm. nefndi. Ég býst við því að við séum öll sammála um að þetta sé óréttlátt og þarna sé verk að vinna til þess að draga úr þessu og læt ég alveg liggja á milli hluta hvaða pólitísku öfl það voru sem á sínum tíma beittu sér harðast fyrir tekjutengingum af hvaða tagi sem er. Látum það liggja á milli hluta en reynum að komast til botns í þessu máli og leysa úr því.

Sú nefnd sem ég hef nefnt hér til sögunnar er undir formennsku ráðuneytisstjórans í forsrn., Ólafs Davíðssonar, og ég veit að þar er vel og skipulega unnið og ég vona að við fáum brátt einhverjar niðurstöður úr því starfi og tillögur um það hvernig hægt sé að bregðast við án þess að allt kerfið fari á slig.