Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 14:17:56 (112)

2000-10-05 14:17:56# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[14:17]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Við heyrðum spá hv. þm. um næsta ár, að það verði meiri hagvöxtur á næsta ári en á þessu og við skulum bara hafa það í huga og nú er það orðið skjalfast.

En ég vil minna á, herra forseti, það sem ég tel að vanti upp á þessi fjárlög. Ég tel að það vanti upp á að leiðrétta hlut sveitarfélaganna. Þau eiga inni hjá ríkissjóði að mati vísustu manna 4,9--5,5 milljarða fyrir hvert ár sl. ár vegna þeirra laga og skyldna sem við höfum sett á sveitarfélögin í svo margföldu formi. Það eru einir átta eða níu liðir sem ég gæti tínt hér upp hefði ég tíma til að tala lengur en í stuttu andsvari. En þar verðum við að leiðrétta, a.m.k. er um að ræða eina 4,9--5 milljarða sem eiga eftir að fara af þessum 30,3 milljörðum ef við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæm. Það er alveg nákvæmlega sama hvaða tillaga kemur frá tekjustofnanefnd, sem er undir forustu hv. þm. Jóns Kristjánssonar, ég veit að talan liggur einhvers staðar þar um. Það hef ég frá vísum mönnum sem um þessi mál hafa vélað. Og ef við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæm þá verðum við að leiðrétta til sveitarfélaganna, annars verðum við að draga til baka þau lög sem við höfum sett þeim til handa til þess að standa undir.