Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 14:19:46 (113)

2000-10-05 14:19:46# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[14:19]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í hvað kemur út úr þessum baunateljurum sem eru að reyna að finna út hvað sé ríkisins og hvað sé sveitarfélaganna. Það kemur allt í ljós í fyllingu tímans. Hins vegar ætla ég að fullyrða það við hv. þm. að eins og ástandið er á Íslandi í dag, eins og við höfum réttilega getið um hér, bæði talsmenn stjórnarinnar, og talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa líka rætt það, þá er full ástæða til þess að fara varlega, það er full ástæða til að gæta sín. Við höfum ástæðu til að ætla að það geti hægt á þeirri miklu kjarabót sem hefur verið hér í landinu á hverju ári undanfarin fimm, sex ár. Þó að það væri ekki nema að hægja verulega á henni þá er það heilmikið átak og mjög erfitt fyrir launafólk. Þannig að hv. þm. getur alveg treyst því, sama hverjar kröfur sveitarfélaga kunna að vera um auknar tekjur, að það er mjög lítill eða nær enginn hljómgrunnur innan Sjálfstfl. um að veita sveitarfélögum heimild til að auka skatta á almenning.