Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 14:39:35 (119)

2000-10-05 14:39:35# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[14:39]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mér er fullkunnugt um að það eru skýringar á því að barnabæturnar hafi verið skertar á liðnum árum þannig að þær eru nú 2 milljörðum lægri að raungildi núna en þær voru í upphafi tíunda áratugarins. Ég veit að það eru skýringar á þessu. Lögum og reglum var breytt á sama hátt og lögum og reglum var breytt varðandi útreikning á greiðslum úr almannatryggingum, greiðslum sem voru skertar til aldraðra og öryrkja. Að sjálfsögðu veit ég að þetta byggir á breytingum sem gerðar voru á reglum og lögum. Að baki þessum breytingum eru menn, er ríkisstjórn og hún heitir ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Ég geri mér grein fyrir þessu öllu saman. En við skulum ekki drepa þessum málum á dreif.

Hæstv. fjmrh. segir að Alþingi hafi samþykkt að opna sendiráð í Tókíó. Það er alveg rétt. En Alþingi hefur aldrei samþykkt að opna fjárhirslur sínar með þessum hætti, að gefa út opinn víxil. Og hæstv. fjmrh. leyfir sér að koma hér upp og segja að samkvæmt ráði vísustu manna --- að mati bestu sérfræðinga verði ekki komist hjá því að kaupa sendiráð sem kostar 700 millj. kr., tæpan milljarð. 100 millj. kr. meira en verið er að láta af hendi rakna til viðbótar til barnafólks.

Ég spyr hæstv. fjmrh. og hann svarar því væntanlega síðar þegar hann kemur hér upp í dag því hann getur ekki komið aftur upp í andsvari: Hefur hann skoðað þessar teikningar? Hefur hann farið yfir þessar ráðleggingar hinna vísustu manna og færustu manna sem hafa ráðlagt ríkisstjórninni að kaupa sendiráð fyrir 700 millj. kr.? Síðan ætla þeir að reka sendiráðið fyrir á annað hundrað milljónir.