Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 14:41:56 (120)

2000-10-05 14:41:56# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[14:41]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Fjárlagafrv. sem við ræðum nú á haustdögum árið 2000 er enn og aftur til þess fallið að styrkja og varðveita stöðugleikann í íslensku efnahagslífi. Þau gleðilegu tíðindi hafa enn og aftur gerst að hæstv. fjmrh. hefur lagt fram frv. með miklum tekjuafgangi, 30 milljarða tekjuafgangi, og hefði engan dreymt um það fyrir aðeins fáum árum síðan. Ríkisstjórnin fylgir áfram aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum til þess að tryggja stöðugleikann og greiða niður skuldir.

En þrátt fyrir að hér sé fylgt aðhaldssamri stefnu þá má í frv. sjá mörg merki þess að hér er um framsækið frv. að ræða til þess að stuðla að framförum, auka velmegun og styrkja velferðarþjóðfélagið. Ég vil aðeins nefna fá dæmi þar um. Ég nefni sérstaklega framlög til barnabóta og fæðingarorlofs sem hér voru til umræðu áðan, til rannsóknar- og þróunarstarfsemi, til hækkunar lífeyrisbóta og auknar framkvæmdir við vegi og hafnir, einkum á þeim landsvæðum þar sem ekki ríkir þensla á vinnumarkaði. Þessir þættir og fleiri eru til þess að undirbúa jarðveginn fyrir hið nýja hagkerfi en að því vík ég síðar.

Menn spyrja af hverju þessum afgangi sé ekki eytt í einhver mikilvæg mál. Eftirspurnin í ríkiskerfinu er geysileg eftir fjármagni. Tillögurnar eru margar og flestar stórgóðar. Öll höfum við sjálfsagt fengið upphringingar síðustu daga þar sem kynntar eru fyrir okkur frábærar tillögur um góð verkefni. Og ekki megum við gleyma því að skattalækkanir eru kannski eðlilegasta ráðstöfunin þegar stefnir í mikinn afgang á fjárlögum.

En hvað er gert við þennan afgang? Jú, það eru mikil not fyrir þennan afgang til þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs sem safnast hafa upp á undangengnum árum þegar verr gekk í ríkisbúskapnum. Nú er þriðja árið í röð verið að greiða í miklum mæli niður skuldir ríkissjóðs sem aftur sýnir sig í stórkostlega minnkandi vaxtagreiðslum ríkissjóðs. Það er skynsamlegt að borga niður skuldir þegar þess er nokkur kostur því að peningunum er betur varið til margra annarra þátta í okkar sameiginlegu útgjöldum heldur en vaxtagreiðslna. Reyndar er svo komið að stefnt er að því að búið verði að greiða niður skuldir ríkissjóðs árið 2003 eða 2004 þannig að peningalegar eignir verði meiri en skuldir. Þarna er horft til framtíðar og verið að byggja upp traustan efnahag fyrir komandi kynslóðir og til þess að vera betur í stakk búin ef og þegar áföll dynja á okkur.

Augljóst mál er að mikill vöxtur í efnahagslífinu hefur reynt nokkuð á hagkerfið. Því er mikilvægt að slegið verði á þenslu með aðhaldssemi í ríkisfjármálum og peningamálum. Sú stefna ríkisstjórnarinnar birtist mjög eindregið í þessu fjárlagafrv.

[14:45]

Íslendingar eru viðkvæmari en margir aðrir fyrir þær sakir hversu lítið hagkerfið er. Á hinn bóginn er það styrkur hversu opið og sveigjanlegt hagkerfið er. Vaxandi sókn íslenskra fyrirtækja á erlenda fjármagnsmarkaði sýnir þetta og er styrkur þegar til lengri framtíðar er litið. Sú stefna þessar ríkisstjórnar sem og þeirrar næstgengnu að byggja á opnum markaðsbúskap, stöðugleika, skýrum leikreglum og öflugum innviðum til að búa í haginn fyrir atvinnulífið er þarna tvímælalaust að skila sér. Traust efnahagsumhverfi hefur glætt vöxt í mörgum greinum atvinnulífsins, nýja hagkerfið hefur átt greiðan aðgang inn í íslenskt efnahagsumhverfi og hefur sett svip sinn á efnahagsþróunina. Íslendingar virðast þarna standa mjög framarlega og vöxtur slíkra fyrirtækja er hraður. Íslendingar eru einnig með fremstu þjóðum hvað varðar aðgang að netinu og GSM-fjarskiptum.

Fyrir utan efnahagsstjórnina, opinn markað og öfluga innviði samfélagsins skiptir aðlögunarhæfni vinnuaflsins miklu máli. Það virðist liggja í eðli Íslendinga að geta aðlagað sig mjög hratt að nýjum aðstæðum. Það er ákaflega verðmætur eiginleiki á tímum nýja hagkerfisins. Þar kemur einnig til hröð aðlögun menntakerfisins að breyttum aðstæðum og framboð á sí- og endurmenntun hefur margfaldast á stuttum tíma. Ekki síst í fjarkennslu og með tækni gagnvirkrar miðlunar og tölvusamskipta. Stjórnvöld hafa lagt metnað sinn í að bæta stöðugt við þennan þátt menntakerfisins og má reyndar segja að almenn vakning sé í menntakerfinu og atvinnulífinu hvað varðar sí- og endurmenntun. Einnig hafa risið upp háskólar sem sinna nær eingöngu umhverfi hins nýja hagkerfis í tölvu- og viðskiptagreinum. Auðvitað er það þó svo að öll menntun skiptir miklu máli hvað varðar framgang nýja hagkerfisins og skólakerfið hefur brugðist við því á ýmsa vegu.

Að lokum vildi ég nefna að framlög til rannsókna og vísinda skipta miklu máli og þess má sjá stað í fjárlögum undanfarinna ára. Mestur kraftur hefur verið í þeim atvinnugreinum sem eiga það sameiginlegt að drifkraftur þeirra er rannsóknir og þróun.

Atvinnustefna og stefna í mennta- og menningarmálum verða sífellt samofnari í þekkingarþjóðfélögum nútímans og á það ekki síst við um Ísland. Ríkisstjórnin hefur einnig lagt áherslu á atvinnugreinar sem byggjast á þekkingu og menntun, svo sem listir og menningu. Þar hefur náðst meiri árangur en vænst var.

Opinber útgjöld til rannsókna og þróunarstarfs hafa stóraukist, en einnig hefur starfsemi einkaaðila stóraukist á þessu sviði. Þar hafa skipulagsbreytingar í hagkerfinu, ekki síst opnun fjármagnsmarkaðar og efling hlutabréfamarkaðar, skipt sköpum um möguleika framsækinna einkafyrirtækja til að stunda rannsóknir og þróun.

Það er geysilega mikilvægt að haldið verði áfram sölu ríkisfyrirtækja og andvirðið notað til frekari styrkingar innviða samfélagsins, ekki síst samgöngubóta. Það skiptir því miklu máli að þau áform sem birtast í fjárlagafrv. um sölu ríkisfyrirtækja gangi eftir og helst að það náist enn betri árangur en þar er stefnt að.

Afar stór þáttur í því að halda efnahagslífinu á réttum kili er að náð verði tökum á byggðaþróun í landinu. Í gildi er stefna í byggðamálum sem nú er eins og hálfs árs gömul. Stefna ríkisstjórnarinnar hefur verið að vinna markvisst áfram samkvæmt þeirri stefnumörkun. Það er mikilvægt að fólk og fyrirtæki í landinu geti treyst því að þarna verði hvergi slakað á. Aukin fjölbreytni í atvinnulífinu, fjölbreyttari menntunarleiðir, markviss styrking á menningarlífinu og styrking ýmissa búsetuþátta, svo sem lækkun húshitunarkostnaðar, fasteignagjalda og námskostnaðar, mun styrkja búsetu og vonandi snúa við búsetuþróun í landinu.

Stærsta einstaka verkefnið sem mun hafa afgerandi áhrif á byggðaþróun, ásamt víðtækum áhrifum á íslenskt efnahagslíf, er virkjun við Kárahnjúka og bygging álvers á Reyðarfirði sem nú eru áform um. Miklum fjármunum hefur verið varið til undirbúnings og þróunarvinnu á þessu ári og verður á því næsta. Stefnt er að ákvarðanatöku 1. febrúar 2002 og að framkvæmdir hefjist það ár, en álverið geti hafið framleiðslu árið 2006. Er þetta stærsta verkefni sem ráðist hefur verið í í samvinnu íslenskra stjórnvalda, Landsvirkjunar og íslenskra og norskra fjárfesta.

Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt í vinnu okkar fjárlaganefndarmanna að lesa saman byggðaáætlunina og fara yfir hvernig einstök ráðuneyti hafa fylgt eftir stefnunni. Einnig er mikilvægt að fara yfir það með þeim ríkisforstjórum og forstöðumönnum stofnana að aukning á starfsemi og fjölgun starfsmanna sem þeir hugsanlega áætla, verði út um byggðir landsins eins og byggðaáætlun og stefnumótun Alþingis gerir ráð fyrir.