Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 15:27:43 (128)

2000-10-05 15:27:43# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[15:27]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins út af því síðastnefnda sem hv. þm. nefndi þá liggur ekki enn þá fyrir hvar á að draga úr vegaframkvæmdum í samræmi við tillögur frv. um niðurskurð í þeim efnum á næsta ári. En við vitum að raunaukning er mikil í vegaframkvæmdum samkvæmt frv. á næsta ári. Ekki má gleyma því að á höfuðborgarsvæðinu er núna verið að ráðast í eitthvert stærsta vegaframkvæmdaverkefni ársins í ár og sennilega næsta árs líka, sem eru 800 millj. kr. mislæg gatnamót við Mjóddina. Það er verið að breikka Miklubrautina. Hver borgar þetta? Þetta borgar ríkissjóður, Vegasjóður, og það er margt í gangi.

En hættulegustu gatnamótin í Reykjavík eru gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Af hverju er ekki hægt að ráðst í framkvæmdir þar? Það er vegna þess að núverandi meiri hluti í borgarstjórn Reykjavíkur tók mislæg gatnamót á því svæði út af skipulaginu í Reykjavík. Þess vegna er það mál stopp og ekki út af neinu öðru.

Að því er varðar önnur atriði sem hv. þm. nefndi þá spurði hún að því hvort skynsamlegt væri að selja eignir ríkissjóðs. Já, ég tel að svo sé. Hún vitnaði til þess að hlutafjáraukningin í bönkunum á sínum tíma hefði verið þensluhvetjandi og spurði hvort það væri í ljósi þess skynsamlegt að selja eignir ríkissjóðs. Þetta er allt annað mál. Ef ríkið selur eignir sínar þá er það að taka inn peninga úr hagkerfinu, getur notað þá eftir atvikum til að borga upp skuldir eða ráðstafað þeim til annarra þátta. Það er ekki verið að skapa nýtt útlánsfé fyrir bankana eins og hlutafjáraukningin gerði. Því er ekki saman að jafna og allt annað mál.

Síðan vildi ég nefna fíkniefnamálin. Þar detta út tímabundin framlög, kaup á tækjum sem er núna búið að kaupa og þarf ekki að kaupa aftur, gegnumlýsingarbíll og fleira þess háttar.

Síðan vildi ég benda mönnum á öll hin hræðilegu framlög til Schengen-samstarfsins svonefnda, sem menn hafa verið að gagnrýna, skyldu þau ekki gagnast neitt í fíkniefnabaráttunni, t.d. í auknu landamæraeftirliti og stórfelldum fjármunum til að bæta gæslu á Keflavíkurflugvelli?