Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 16:03:42 (142)

2000-10-05 16:03:42# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[16:03]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns vil ég gera athugasemdir við að í dag við umfjöllun um fjárlög ársins 2001 hafa ákaflega fáir ráðherrar verið til staðar þó að úr hafi ræst seinni partinn. Mér finnst það óvirðing við þingið að framkvæmdarvaldið skuli ekki fylgjast með umræðum um mikilvægasta mál þingsins, að ráðherrar skuli ekki vera viðstaddir þegar við ræðum fjárlögin.

Talsmaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hv. þm. Jón Bjarnason, fór inn á samskipti ríkis og sveitarfélaga í ræðu sinni og hæstv. fjmrh. brást hart við þeirri ræðu og spurði hv. þm. að því hvort hann gerði sér ekki grein fyrir því að að störfum væri nefnd um endurskoðun á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem hefði ekki enn skilað af sér. Á sumum sviðum er auðvitað gefinn pólitískur tónn í þessu frv. til fjárlaga. Meginlínur ríkisstjórnarinnar koma fram í frv. og þó t.d. sé búið að samþykkja hlutafélagavæðingu þeirra fyrirtækja sem á að selja þá er gefinn tónn um sölu á ríkiseignum upp á 7,3 milljarða án þess að það sé á nokkurn hátt útfært. Ég hefði sagt að ef hugur ríkisstjórnarinnar stendur til þess, virðulegi forseti, að taka myndarlega á þeim vandamálum sem eru uppi varðandi samskipti ríkis og sveitarfélaga þá liggja nokkurn veginn fyrir tölur sem væri á sama hátt hægt að setja inn í þetta frv. eins og gert er varðandi sölu ríkiseigna, sem er greinilega mjög ofarlega á blaði hjá hæstv. ríkisstjórn. Ef mönnum er alvara um að fara í málið varðandi samskipti ríkis og sveitarfélaga, varðandi endurskoðun á tekjuskiptingunni væri fullt tilefni til að setja þau mál inn.

Menn hafa alls staðar verið sammála um að bráðnauðsynlegt sé að endurskoða t.d. fasteignaskattinn úti á landi. Ég veit ekki betur en að búið sé að nefna tölur í því sambandi þannig að fasteignaverð verði þá borgað úti á landi í samræmi við það markaðsverð sem er á íbúðum þar. Ef menn ætla að gera eitthvað róttækt í þessum málum væri auðvitað á sama hátt og gert er varðandi drauminn um sölu ríkisfyrirtækja hægt að gefa þann megintón í fjárlögunum fyrir 2001 að það eigi að fara í þessa vinnu. En það er ekki gert og gefur manni tilefni til þess að halda að nefndin sem á að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga ætli kannski ekkert að flýta sér vegna þess að áhuginn sé í minna lagi til að fara í þetta mál.

Við ræðum nánast á hverjum degi um stöðu landsbyggðarinnar í sambandi við málaflokk eftir málaflokk. Það er morgunljóst að staða sveitarfélaganna í dag, sérstaklega úti á landsbyggðinni, er með þeim hætti að það er stærsta byggðamálið að rétta þar við, fara ofan í þau mál og leysa þau. Staða sveitarfélaganna er slík að það stendur í vegi fyrir því að nokkur framþróun sé í veigamiklum stórum málaflokkum vegna þess að það skortir fé til að standa straum af slíku.

Eins og kunnugt er hafa flest sveitarfélögin verið í stórum og miklum fjárfestingum vegna einsetningar skóla. Einsetning skóla og heilbrigðiskerfið hefur tekið nánast allt það fé sem er til ráðstöfunar hjá sveitarfélögunum. Þar hefur brunnið á og þar hafa sveitarfélögin leyst úr málum.

En undirliggjandi vandi er gríðarlegur. Aðrar nauðsynlegar framkvæmdir sveitarfélaganna eru látnar líða fyrir það að leyst er úr þeim málum sem brennur mest á og það eru skólarnir og það er heilbrigðiskerfið. Það er stöðnun hvað varðar allt sem heitir umhverfismál og nefni ég þá sérstaklega ástandið í fráveitumálum o.s.frv. Það verður að fara í þessi mál.

Sveitarfélögin tóku við grunnskólakerfinu af ríkinu með óuppgerðan pakka í pokahorninu. Allir vissu að launamál kennara voru í ólestri og jafnvel húsnæðismál skólanna ofan á það sem þurfti að gera varðandi einsetninguna. Þetta hefur reynst sveitarfélögunum miklu dýrara en ella.

Nú hefur heyrst að hv. ríkisstjórn muni gera tillögu um að vandi sveitarfélaganna verði leystur í gegnum jöfnunarsjóð. Ég geri stórar athugasemdir við þá hugsun í grunninn. Jöfnunarsjóður sem ráðskast er með á þann hátt að menn þurfa að koma á hnjánum og fá ölmusu til að geta rekið sveitarfélag sitt er í grundvallaratriðum vond lausn. Kannski má segja að það sé sama hvaðan gott kemur en við eigum auðvitað að gera þær breytingar á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga að sem flest sveitarfélög í landinu, sem hafa til þess burði, geti verið sjálfbær og þurfi ekki á þessum jöfnunaraðgerðum að halda. Það er ekki gert með því að efla jöfnunarsjóðinn, það verður fyrst og fremst gert með því að fara ofan í þau kerfislægu vandamál sem eru til staðar. Sveitarfélögin þurfa svo sannarlega á því að halda.

Blessunarlega höfum við sveitarfélög úti um allt land sem eru burðug og geta verið sjálfbær ef tekjustofnaskiptingin væri í lagi. Ég ætla ekki að elta ólar við tölur í þessu sambandi, menn hafa nefnt 4,5 eða 5,5 milljarða en það er grunntónninn sem verður að vera gefinn og þess vegna er það meginatriði frá mínum bæjardyrum séð að ekki skuli sjást stafkrókur um það að menn ætli raunverulega í þessa vinnu gagnvart sveitarfélögunum og gagnvart einstaklingunum úti á landi. Mjög mikil vonbrigði varðandi mjög stórt mál og grundvallarmál hvað varðar byggðaþróun í landinu. Ef sveitarfélögin verða um lengri tíma en orðið er svelt á þann hátt að allar nauðsynlegar framkvæmdir liggja í láginni, svo sem gatnagerð, umhverfi fólksins, menningarmál o.s.frv., þá er það rótin til þess að við missum fólkið frá þessum dreifðu byggðum og hingað á suðvesturhornið. Í grunnatriðum verður að fara í þessi mál og ég krefst þess að þingheimur leggi á það áherslu og ég vænti þess að stjórnarandstaðan geti verið sammála um að fara í þá vinnu.

Maður tekur eftir því að í fjárlagafrv. skortir ekki á aukningu varðandi allt sem heitir samskipti við útlönd. Ég get í sjálfu sér sagt að það er allt í lagi að hafa góð samskipti við útlönd en menn þurfa greinilega að ferðast mikið og þar eru sjálfkrafa aukningar og ekki við því amast enda hefur fjöldi Íslendinga tífaldast í Brussel á undanförnum árum o.s.frv. Það þykir ekki mikið mál. Við erum ekki að kalla á framlög, við erum ekki að kalla á aukaeyðslu. Við erum að leggja áherslu á öðruvísi áherslur varðandi uppbyggingu á fjárlögum ríkisins.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð var t.d. á móti því að við færum í Schengen. Schengen skapar gríðarleg útgjöld fyrir ríkissjóð eins og kunnugt er en það eru ekki bara útgjöld vegna Keflavíkurflugvallar og þeirrar uppbyggingar sem þar þarf að eiga sér stað heldur er það vegna þess að óheft flæði fólks úr EB inn í landið gerir það að verkum að stórefla þarf löggæslu innan lands og taka á málunum þegar búið er að hleypa vandanum inn í landið. Það er meginmál.

Virðulegi forseti. Þetta frv. til fjárlaga eru vonbrigði vegna þess að í fyrsta lagi er frá mínum bæjardyrum séð á engan hátt tekið sérstaklega á grunnvandamálum landsbyggðarsveitarfélaganna en ekki vílað fyrir sér að vera með hástemmdar hugmyndir um sölu á fjölskyldusilfrinu, ríkiseignum og settar niður tölur í því sambandi, 7,3 milljarðar skal það vera.