Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 16:28:28 (146)

2000-10-05 16:28:28# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[16:28]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. formaður fjárln. erum sammála um að jöfnunarsjóðurinn verður að vera til staðar. En ég vil bara árétta það í málflutningi mínum að eitt brýnasta verkefni sem liggur fyrir þinginu er að taka á þessum tekjuskiptingarvandamálum milli ríkis og sveitarfélaga og rétt er að nefna að hv. 3. þm. Austurl., Jón Kristjánsson, er formaður einnar mikilvægustu nefndar þingsins og ber ábyrgð á að hún skili af sér fljótt og vel. (Gripið fram í: Þetta er ekki þingnefnd.) Fyrirgefðu. Virðulegi forseti. Þetta er ekki þingnefnd. En hann veitir þessari nefnd forstöðu sem á að gera tillögur um þessi samskipti. Ég vil bara árétta að ég tel að ef ekki verður farið í að leggja fram tillögur um nýtt form, nýtt fyrirkomulag á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þá leiði það til þess að innan örfárra missira verði æ fleiri sveitarfélög upp á það komin að þurfa að fá að meira eða minna leyti framlög úr jöfnunarsjóði til þess að geta verið til. Þetta er grundvallarmál hvað varðar byggðirnar og það er sannarlega þörf á leiðréttingu þarna.

Ég vil árétta það einu sinni enn að staða sveitarfélaganna er ærið misjöfn. En dragist úr hömlu að leggja fram nothæfar tillögur fyrir sveitarfélögin þá leiðir það til þess að æ fleiri verða komnir á vonarvöl eins og gerst hefur á undanförnum missirum.