Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 16:30:18 (147)

2000-10-05 16:30:18# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[16:30]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf í rauninni ekki miklu við þetta að bæta. Það er nauðsynlegt að komast að niðurstöðu um þessi mál innan tíðar. Hin margumtalaða nefnd hefur safnað mjög miklum upplýsingum um tekjur sveitarfélaga, eftir stærð þeirra, landshlutum o.s.frv. og hefur mjög greinargóðar upplýsingar um síðasta tíu ára tímabil. Vissulega hefur það tekið lengri tíma en við áætluðum í upphafi að ná inn þessum upplýsingum og er það umhugsunarefni í sjálfu sér að þessar tölur skuli ekki liggja fyrir fyrr, t.d. fyrir síðasta ár, en ég ætla ekki að orðlengja um það hér.

Varðandi það hliðarmál sem okkur var fengið til umfjöllunar, þ.e. breytt löggjöf um álagningu fasteignaskatts, þá þarf að flytja frv. um það. Núverandi fyrirkomulag var sett vegna kröfu sveitarfélaganna fyrir tíu árum. Þá voru aðstæður aðrar. Nú hefur t.d. hækkun á fasteignaverði og fall eigna úti á landi orðið til þess að landsbyggðarfólk greiðir af fasteignamati í Reykjavík. Það er grunnurinn. Það er óréttlátt en hins vegar er það ekki tekjumál fyrir sveitarfélögin. Ætlunin er að sveitarfélögin standi jafnrétt eftir þá breytingu en þetta er breyting upp á rúmlega milljarð, þ.e. skattalækkun á fólk á landsbyggðinni sem er mikilvægt og er ætlunin að leiða þetta til lykta á næstunni.