Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 17:05:40 (152)

2000-10-05 17:05:40# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[17:05]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson beindi til mín spurningu um hvort ég vildi hækka skatta. Ég vil ekki hækka skatta. Ég vil færa tekjur í samræmi við þau verkefni sem við höfum sett á sveitarfélögin með lögum, ég vil færa tekjur frá ríkissjóði til sveitarfélaganna. Þetta er nákvæmlega í samræmi við sveitarstjórnarræðu mína sem hv. þm. kallaði svo. Ég er bara að fara nákvæmlega yfir þau atriði sem við höfum sett og gert sveitarfélögunum að standa undir með lögum.

Þegar talað er um hagvöxtinn til sveitarfélaganna spyr ég hv. þm. Einar Odd Kristjánsson: Telur hann að hagvöxturinn hafi komið til sveitarfélaganna með því að þar er sífelld fækkun? Á ég að trúa því að fækkun á Súgandafirði hafi orðið til þess að þar hafi orðið hagvöxtur? Nei, ekki aldeilis. Það er einmitt þess vegna sem þarf að hjálpa sveitarfélögum. Það getur vel verið að Súgfirðingar séu búnir að jafna sig á þessum verstu áföllum sem þeir urðu fyrir. En hvað með allar félagslegu íbúðirnar? Við verðum að taka á því. Eigum við að stofna Félagslegar leiguíbúðir Íslands hf. fyrir landsbyggðina? Hvað eigum við að gera? Meðan við setjum lög sem koma út sem beinn kostnaður fyrir sveitarfélögin eigum við að láta tekjur fylgja með. Ef við höfum sett lög án þess að gera þetta eigum við að leiðrétta þessa hluti. Við eigum að færa til fjármuni til sveitarfélaganna í samræmi við aukin verkefni eins og ég rakti áðan skilmerkilega og ég get komið með fleiri liði. Ég fór í 14 liði. Ég hef a.m.k. 16 eða 17 liði sem við höfum klárað með lagasetningu.