Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 17:09:30 (154)

2000-10-05 17:09:30# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[17:09]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Þar fengum við það og ekki er langt á milli okkar hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar í þessu máli varðandi félagslegu íbúðirnar. Ég er alveg klár á því að það verður að gera þetta á einhvern þann hátt að það verður að afskrifa skuldirnar og koma þessu af stað á nýjan veg.

Af því að ég tíndi aðeins upp 13--14 punkta vil ég nefna það og ég spyr hv. þm. Einar Odd Kristjánsson um leið: Telur hann að það sé rangt að tekjur eigi að fylgja með þeim verkefnum sem við höfum sett yfir til sveitarfélaganna? Á ég að trúa því? Ég veit að hann meinar það ekki. Hann meinar það ekki og hefur heldur ekki farið yfir þessa pósta.

Ég nefndi heldur ekki heilbrigðiseftirlit þar sem við settum lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarir. Þar breyttum við gjaldskrá. Það er beinn aukinn kostnaður fyrir sveitarfélögin. Ég nefndi heldur ekki hafnamálin þar sem sveitarfélög greiða núna 25% við dýpkunarframkvæmdir en greiddu áður 10%. Þetta gerðum við með lögum.

Síðan nefndi ég heldur ekki lög nr. 73/1997, um skipulags- og byggingarmál. Hvað gerðum við þar? Við settum beinan aukinn kostnað á sveitarfélögin án þess að tekjur fylgdu með. Það eru þessi atriði sem ég veit að við hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson munum ná samkomulagi um að lagfæra.