Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 17:11:24 (155)

2000-10-05 17:11:24# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[17:11]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Gísli S. Einarsson kvartaði undan því að gert væri ráð fyrir því að fresta framkvæmdum við vegagerð. Af því tilefni hlýt ég að minna hv. þm. á að samkvæmt fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að varið verði 5,4 milljörðum kr. til nýframkvæmda við vegagerð Þar er um að ræða 30% hækkun frá þessu ári.

Frestun framkvæmda er hins vegar upp á 800 millj. kr. og þá er búið að gera ráð fyrir því inni í þeirri prósentuhækkun.

Af því að hv. þm. nefndi sérstaklega í því samhengi framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og talaði um slysagildrur er rétt að minna á að samkvæmt vegáætlun hækka framlög til höfuðborgarsvæðisins úr 660 millj. í 1.863 millj. sem er býsna myndarleg hækkun. Að vísu gerum við ráð fyrir því að einhver frestun verði á framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu. Hvers vegna er það sem við teljum nauðsynlegt að fresta framkvæmdum hér? Það er vegna þess að ekki er til nægjanlega margt fólk til að vinna þessi verk. Það liggur alveg fyrir að spennan á vinnumarkaði á höfuðborgarsvæðinu er slík að nauðsynlegt er að hægja aðeins á.

Engu að síður eru í gangi framkvæmdir við mislæg gatnamót eða í undirbúningi framkvæmdir við mislæg gatnamót bæði á Reykjanesbrautinni og Breiðholtsbrautinni sem er ein allra stærsta framkvæmd sem ráðist verður í í vegamálum og sömuleiðis er gert ráð fyrir mörgum öðrum framkvæmdum sem ég get ekki nefnt hér í andsvari. Hins vegar er ástæða til að vekja athygli á því að e.t.v. stærsta slysagildran á höfuðborgarsvæðinu er í gíslingu hjá borgaryfirvöldum. Það eru gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.