Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 17:13:42 (156)

2000-10-05 17:13:42# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[17:13]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir að koma upp og ræða þessi mál við mig þó að það sé bara í andsvari. Það sem ég var að leggja áherslu á er að ég bið um að þær frestanir, sem verða á þeim framkvæmdum, verði ekki til þess að viðhalda einhverjum slysagildrum. Ég er alls ekki að bera það á borð að það sé ætlun ríkisstjórnar eða hæstv. samgrh., síður en svo. Ég treysti á að þeim aðgerðum sem frestað verður, sé hægt að koma til skila þó síðar verði en svo sannarlega er hægt að taka undir að það framkvæmdir upp á 5,4 milljarða eru mikil verkefni. Mér er einnig kunnugt um að starfsmenn Vegagerðarinnar eru önnum kafnir við undirbúning þeirra framkvæmda sem þegar hafa verið ákveðnar þannig að það er ekkert óljóst í mínum huga. Ég segi enn og aftur að frestun framkvæmda getur leitt til aukins kostnaðar. Menn verða að skoða mjög vel út frá þessum orðum hvar menn setja verkin í bið. Ég trúi því og treysti af því að ég þekki hæstv. samgrh. að þau mál verði skoðuð mjög ítarlega. Ég þekki ekki það dæmi sem borgarstjórn Reykjavíkur er með í gíslingu og vil ekkert ræða það vegna þess að ég þekki það ekki en fulltrúar frá borgarstjórn voru hjá fjárln. fyrir skömmu og útskýrðu rækilega þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru og sögðu þar jafnframt að borgin mundi leggja mikla áherslu á að koma sumum þeirra áfram.