Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 17:35:49 (163)

2000-10-05 17:35:49# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[17:35]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það var mat þeirra sem best til þekkja að heldur muni draga úr fíkniefnaeftirliti og það verði á ýmsa lund erfiðara um vik að hafa eftirlit með fíkniefnum með Schengen-samkomulaginu. Ég ætla ekki að nota tíma minn til þess að svara því en hæstv. fjmrh. spyr hvert menn séu að fara með því að gagnrýna að fjárveitingin til áfengis- og fíkniefnamála sé lækkuð um 10 millj. kr. Hann spyr hvert menn séu að fara þegar þeir taka undir með Landssambandi lögreglumanna, þeirra manna sem sinna þessum störfum, sem hafa af því áhyggjur hver stefna er rekin af ríkisstjórninni og hæstv. fjmrh. er ábyrgur fyrir.

Varðandi húsnæðismálin vakti ég athygli á því að 100 millj. kr. framlag er fellt niður, framlag sem hefur verið notað til að niðurgreiða vexti til félagslegra leiguíbúða, en á móti kemur helmingi lægri upphæð, 50 millj. kr. Ég vænti þess að við eigum eftir að fá skýrari svör frá ráðherrum, ekki aðeins hæstv. fjmrh. heldur einnig félmrh. sem hafa komið fram með mjög gagnstæðar fullyrðingar og gagnstæð sjónarmið um hvernig eigi að bregðast við þegar bráðabirgðaákvæði nr. IX í lögum nr. 44/1998 rennur út.