Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 17:48:11 (165)

2000-10-05 17:48:11# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[17:48]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þessi umræða hefur um margt verið ákaflega lýsandi og hún hefur skýrt stöðu ríkisfjármálanna. Það hefur t.d. verið skýrt fyrir mér að þingmönnum Sjálfstfl. er í rauninni alveg sama þó að það liggi fyrir, og þeir hafi ekki getað neitað því, að persónuafsláttur hefur legið eftir, liggur undir launaþróuninni. Þetta hefur leitt til þess að fjöldi fólks sem ekki hefur þurft að borga skatta áður, fjöldi fólks sem hefur lifað af strípuðum bótum og hefur lifað af lágum tekjum er allt í einu kominn í hóp skattgreiðenda. Mér þætti til að mynda gaman að vita hvað mannvinurinn hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson segir um það. Er hægt að réttlæta það? Geta menn með sæmilegt hjartalag komið hingað og sagt að það sé bara hið besta mál, eins og hv. þm. Pétur Blöndal gerði hér fyrr í dag?

Það sem liggur eftir þessa umræðu er m.a. að þetta virðist vera aðgerð sem þingmenn Sjálfstfl. vita af og eru sáttir við. Ég tel að þetta sé eitt hið versta sem er að finna í þróun ríkisfjármálanna. Fyrir liggur að þetta mun verða svona á næsta ári og eins og ég rakti í ræðu minni fyrr í dag þá gliðnar enn á þessu ári og á síðasta ári má gera ráð fyrir að 3,5 milljarðar séu með þessum hætti teknir í skatta og lenda með mestum þunga á herðum þeirra sem erfiðast eiga.

Herra forseti. Það hefur líka komið fram í umræðunni, og það hefur ekki gerst ákaflega lengi svo ég muni eftir, að ágreiningur í viðamiklum efnum er millum stjórnarflokkanna. Fram hefur komið að 7,5 milljarðar af tekjuafgangi ríkisins eiga að koma af sölu ríkiseigna. Það hefur hins vegar líka komið fram í umræðunni að ekki er sátt um það milli stjórnarflokkanna hvaða fyrirtæki á að selja. Eru það bankarnir? Ef það eru bankarnir af hverju kemur það ekki fram í fjárlagafrv.? Er það vegna þess að ágreiningur er um það milli Framsfl. og Sjálfstfl. hvernig beri að fara með bankana? Ég held það, herra forseti. Ég held að ágreiningur sé uppi um það. Ef svo er ekki, hvers vegna stendur það þá ekki í frv. að ráðast eigi í sölu þessara banka?

Í annan stað er alveg ljóst að bullandi ágreiningur er um söluna á Landssímanum. Það hefur komið fram í máli hv. formanns fjárln. Jóns Kristjánssonar að hann er á allt öðru máli en þeir þingmenn Sjálfstfl. sem hér hafa talað um sölu Landssímans. Og það liggur alveg ljóst fyrir, herra forseti, að þessi ágreiningur gerir það að verkum að tekjuhlutinn er náttúrlega að vissu leyti í uppnámi.

Herra forseti. Í þriðja lagi hefur komið fram í umræðum hér í dag að ágreiningur ríkir milli Sjálfstfl. og Framsfl. um það hvernig eigi að fara með áframhaldandi niðurgreiðslu á styrkjum til kaupa á leiguíbúðum sveitarfélaga. Þetta kom fram í umræðunni í dag. Hæstv. félmrh. Páll Pétursson lýsti því einfaldlega yfir að ekki væri búið að leysa þetta mál millum stjórnarflokkanna. Hæstv. fjmrh. gaf þá skýringu hérna áðan að það væri vegna þess að svo skammt væri síðan nefnd sem um þetta fjallaði hefði skilað áliti. Ég gef lítið, herra forseti, fyrir skýringar af því tagi.

Mér finnst að margt hafi skýrst varðandi afstöðu manna til þeirra hluta sem mér þykja erfiðastir í efnhagsstjórn um þessar mundir. Þá nefni ég fyrst og fremst viðskiptahallann. Ljóst er að uppi eru mjög mismunandi skoðanir milli stjórnar og stjórnarandstöðu í þeim efnum. Hæstv. fjmrh. er þeirrar skoðunar að viðskiptahallinn sé það vel kynjaður að þessu sinni að ekki þurfi að hafa af honum sömu áhyggjur og áður. Hv. þm. Pétur Blöndal og mig minnir líka hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson tóku undir það. Allir þessir menn og sérstaklega hæstv. fjmrh. færðu nokkuð skýr rök fyrir því af hverju þeir eru þessarar skoðunar.

Það er óhjákvæmilegt að draga þá ályktun af því sem talsmenn Sjálfstfl. hafa sagt hér í dag að þeim finnst ekki að viðskiptahallinn sé verulegt áhyggjuefni. Það er hins vegar þannig að þeir sem hafa það hlutverk með höndum að gefa hæstv. ríkisstjórn ráð um stjórn efnahagsmála eru sammála stjórnarandstöðunni. Þeir eru ekki á sama máli og talsmenn Sjálfstfl. Þeir eru á sama máli og stjórnarandstaðan og hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson og hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttir sem hafa bæði tekið undir með stjórnarandstöðunni um að viðskiptahallinn sé áhyggjuefni.

Herra forseti. Hvað segir í þjóðhagsáætlun? Í henni stendur á bls. 12, með leyfi forseta:

,,Það liggur því í augum uppi að helsta verkefni hagstjórnar verður að koma á betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum landsins, ...``

Þetta segir Þjóðhagsstofnun. Hv. þingmenn Pétur Blöndal, Einar Oddur Kristjánsson og hæstv. ráðherra eru annarrar skoðunar. Þeir líta ekki á þetta sem helsta verkefni hagstjórnar. Þeir hafa verið inntir eftir því hér í dag og þeir hafa ekki svarað því að svo sé.

Herra forseti. Ég vísa líka til þess að við búum við ákaflega lítið og veikt efnahagskerfi og lítill gjaldeyrismarkaður okkar og opinn er auðvitað ákaflega viðkvæmur. Ekki má mikið út af bera til að eitthvað fari úrskeiðis og stöðugleikinn á honum er raunar háður trúverðugleikanum á efnahagsstefnunni.

Við sáum það í sumar að staða gengisins sem hæstv. ráðherrar halda fram að sé svo traust var eins og hv. þm. Jón Bjarnason var að lýsa áðan slík að spákaupmenn gerðu tvisvar sinnum atlögu að íslenska genginu. Seðlabankinn þurfti að verja hartnær 10 milljörðum kr. til að koma í veg fyrir að þessar atlögur tækjust. Við getum búist við því að svo verði aftur.

Hversu trúverðug er efnahagsstefnan, herra forseti? Ég held að framvinda efnahagsmála hérna muni að verulegu leyti helgast af því hvernig tekst að verja íslensku krónuna og hvernig tekst að forða því að viðskiptahallinn grafi undan gengi hennar. En hverjir eru bestu dómararnir á trúverðugleika efnhagsstefnunnar? Það er hæstv. fjmrh. sem kemur hingað og segir að hún sé frábær. Lái honum það hver sem vill. Það er eðlilegt að fjmrh. hafi trú á sinni stefnu. Við stjórnarandstæðingar höfum verið að benda á ýmsa veikleika.

Svo ég fari yfir þá í stuttu máli, herra forseti, þá blasir við að Seðlabankinn hefur þurft að hækka vexti aftur til að ýta undir gengið, halda genginu háu. Hið háa raungengi sem hefur verið hér við lýði hefur að vísu orðið til þess að verðbólga í gegnum innflutning hefur engin verið eða ákaflega lítil. Þetta hefur hins vegar leitt til þess að vextir í landinu eru háir, vaxtamunurinn gagnvart útlöndum er ákaflega hár og raungengið sem hér hefur verið mjög hátt hefur mergsogið útflutningsgreinarnar, sér í lagi á landsbyggðinni. Við sjáum síðan markaðinn dæma, standa upp sem dómara og fella sinn dóm og hver er hann?

Við sjáum það t.d. á hlutabréfamarkaðnum sem endurspeglar trúverðugleika á efnahagsstefnunni. Hefur verðlag á honum nokkurn tíma verið jafnlágt svo missirum skiptir? Það er ákaflega mikilvægur mælikvarði á trúverðugleikann. Við sjáum líka að einn af stærstu fjárfestingarbönkunum í landinu ræðir nú opinskátt um að gengið muni veikjast.

Ég nefndi það áðan að krónan er þegar orðinn skotspónn spákaupmanna. Ég nefndi líka að Seðlabankinn hefur þurft að verja miklum fjármunum til þess að verja krónuna. Við sjáum þetta líka speglast í lélegum milliuppgjörum fyrirtækja og fregnum um slaka útkomu fyrirtækja vegna þess að fórnarkostnaðurinn af mistökunum sem ég rakti í ræðu minni í dag er sá að fyrirtækin þurfa að búa við mjög hátt raungengi. Þau þurfa að búa við ákaflega háa vexti. Þau búa líka við mikinn þrýsting sem birtist í gegnum verðbólguna. Allt er þetta núna að koma fram í uppgjörum fyrirtækjanna.

Síðan blasir það við að fjárlagafrv. er fram sett á þann hátt að ýmsir menn hafa talið sig knúna til þess að koma og tala um að það skapi óvissu og rugling, ekki bara út af þessum málum sem tengdust genginu og ég og hæstv. fjmrh. ræddum í dag, heldur kemur líka fleira þar til.

Ég nefni t.d. húsbréfin. Í fjárlagafrv. kemur fram að húsbréfaútgáfa á að aukast úr 32,8 milljörðum upp í 34,5 milljarða, ef ég man rétt. Aukið framboð á húsbréfum hlýtur vissulega að hafa áhrif á verðlag þeirra á markaði. Það birtist í því að síðustu daga höfum við séð ákveðinn óróa í kringum húsbréfamarkaðinn. Ég ætla auðvitað ekki að draga neinar meiri háttar ályktanir af því.

En það sem ég vildi segja, herra forseti, spurningin er þessi: Er efnahagsstefnan trúverðug? Hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin svarar eðlilega já. Við í stjórnarandstöðunni höfum bent á ýmislegt sem er þess eðlis að efnahagsstefnan er ekki lengur jafntrúverðug og hún var. En sá dómur sem í vaxandi mæli er verið að kveða upp á markaðnum virðist benda til þess að markaðurinn er að tapa þeirri sterku trú sem hann hafði á efnahagsstefnunni.