Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 17:58:26 (166)

2000-10-05 17:58:26# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[17:58]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg skelfilegt þegar menn gerast svo skammsýnir að átta sig ekki á því að sú krafa sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson tók undir áðan, krafan um að persónuafsláttur fylgi launaþróun, er skelfileg. Hún er nefnilega skelfileg vitleysa. Auðvitað verður persónuafslátturinn að fylgja neysluvísitölunni. Auðvitað verður hann að fylgja henni. Hann gerir það og á að fylgja henni. Sjá menn þetta ekki í hendi sér?

Þegar launavísitalan er hærri en neysluvísitalan þá batna kjörin. Þegar neysluvísitalan er hærri en launavísitalan þá versna kjörin. Hvernig dettur mönnum í hug að láta launavísitöluna ráða persónuafslættinum? Hvað gerðist ef kjörin rýrnuðu? Sjá menn þetta ekki? Þá hækka skattarnir. Þetta er kolvitlaust. Þetta er bara hrein vitleysa.

Ríkisvaldið tekur til sín tekjur þegar vel árar og þegar vel gengur. Þegar tekjur manna og kaupmáttur eykst tekur ríkisvaldið til sín tekjur af því að ríkisvaldið hefur þær skyldur að vera tekjujafnandi. Þegar kaupmátturinn rýrnar, neysluvöruvísitalan er hærri en launavísitalan þá lækkar persónuafslátturinn og þá dregur ríkið úr sínum tekjum. Þannig verður þetta að virka og þannig er þetta. Þess vegna ætti að banna, herra forseti, að menn komi og segi svona mikla vitleysu.